Vísitala neysluverðs hækkaði í júlí um 1,17 prósent frá fyrri mánuði og hefur vísitalan því hækkað um 9,9 prósent á síðustu 12 mánuðum. Ársverðbólga hefur ekki mælst eins mikil síðan í september árið 2009 fyrir hartnær 13 árum. Hagstofan birti uppfærða vísitölu neysluverðs í dag en hún stendur í 553,5 stigum.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,94 prósent í júlí og stendur hún í 459,4 stigum. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur hækkað um 7,5 prósent síðasta árið.
Fram kemur á vef Hagstofunnar að sumarútsölur hafi haft áhrif til lækkunar á vísitöluna en verð á fötum og skóm lækkaði um 6,8 prósent og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði sömuleiðis um 2,6 prósent.
Hátt í 40 prósent hækkun á flugfargjöldum
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði aftur á móti um 2,4 prósent og verð á flugfargjöldum hækkaði um 38,3 prósent. Þessi mikla hækkun á verði flugfargjalda í júlí er tilkomin vegna vanmats á hækkuninni í fyrri mánuði.
„Hækkun á flugfargjöldum til útlanda er tilkomin vegna verðhækkunar í júlí 19,9% (0,43%), en einnig vegna þess að flugfargjöld voru vanmetin í júní 2022 (0,29%). Hækkun flugfargjalda í júní hefði átt að vera 20,4% ef ekki hefði komið til vanmats. Leiðréttingin hefur ekki áhrif á birt gildi vísitölu neysluverðs í júní,“ segir á vef Hagstofunnar.
Spá fimm til sex prósenta stýrivöxtum í lok árs
Til að reyna að stemma stigu við verðbólgu hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína skarpt að undanförnu. Þeir standa nú í 4,75 prósentum og voru hækkaðir um heilt prósentustig fyrir mánuði síðan. Vextir Seðlabankans náði lágmarki sínu í nóvember árið 2020 þegar þeir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent. Í maí í fyrra hófst svo vaxtahækkunarferli þegar vextir voru hækkaðir um 0,25 prósentustig, upp í eitt prósent. Síðan þá hafa þeir hækkað upp í áðurnefnd 4,75 prósent.
Í hagspá Landsbankans frá því í maí er því spáð að stýrivextir muni halda áfram að hækka og verða sex prósent við lok árs. Íslandsbanki spáir því að vextirnir verði á bilinu fimm til sex prósent við lok árs í sinni hagspá sem er einnig frá því í maí.