Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hefur hækkað um 8,8 prósent á síðustu 12 mánuðum, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Hækkunin nemur 1,41 prósent frá því í maímánuði, er ársverðbólgan mældist 7,6 prósent.
Samkvæmt tilkynningu á vef Hagstofunnar hefur 2,9 prósenta hækkun kostnaðar vegna búsetu í eigin húsnæði mest áhrif á hækkun vísitölunnar, auk þess sem 10,4 prósenta hækkun á bensín- og olíuverði spilar inn í. Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði svo um 0,8 prósent á milli mánaða og á einnig sinn þátt.
Verðbólga ef húsnæðisliðurinn er undanskilinn mælist nú 6,5 prósent og hækkar um 1,09 prósent á milli mánaða.
Verðbólga hefur ekki verið jafn mikil á Íslandi síðan í október árið 2009, fyrir næstum því þrettán árum síðan. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent.
Má búast við frekari stýrivaxtahækkunum
Seðlabankinn hefur hækkað vexti skarpt að undanförnu og eru stýrivextir bankans nú orðnir hærri en þeir voru áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í upphafi árs 2020. Síðasta hækkun bankans, upp á 1 prósentustig, var tilkynnt fyrir viku síðan og eru meginvextir bankans nú 4,75 prósent.
Stýrivaxtahækkunin var hugsuð til þess að koma böndum á verðbólguna og sagði peningastefnunefnd við vaxtaákvörðun sína að líklegt væri að frekari stýrivaxtahækkana yrði þörf til þess að verðbólgan myndi hjaðna niður í verðbólgumarkmiðið innan ásættanlegs tíma.
„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara,“ sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Hagstofan gaf út nýja þjóðhagsspá á mánudaginn. Þar var gert ráð fyrir því að að verðbólga yrði 7,5 prósent að meðaltali í ár, 4,9 prósent árið 2023 og 3,3 prósent árið 2024.
Eftir það var gert ráð fyrir því að verðbólgan nálgaðist 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans.