Verðbólga verður töluvert þrálátari en áður var spáð og vísbendingar eru um að væntingar um verðhækkanir til framtíðar séu byrjaðar að hækka. Meiri líkur eru á að núverandi spár vanmeti verðbólguna frekar en ofmeti.
Þetta kemur fram í grein Karenar Á. Vignisdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabankans í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn. Í henni fer Karen yfir verðbólguhorfur næstu missera, auk þess sem hún útskýrir hvers vegna verðbólgan á þessu ári hefur reynst meiri og þrálátari en vænst var, þrátt fyrir hækkandi gengi krónunnar.
Skipsstrand og fasteignamarkaðurinn
Samkvæmt henni eru það bæði innlendir og erlendir þættir sem vega á móti gengisstyrkingunni. Innanlands hefur eftirspurnin verið meiri en búist var við, sem sjá má í miklum hækkunum launa og húsnæðisverðs. Auk þess hefur verð á hrávörum hækkað og kostnaður innfluttra vara sömuleiðis vegna framboðstruflana í kjölfar farsóttarinnar og skipsstrands flutningaskipsins Ever Given í Súesskurðinum í mars.
Áhrif þessara framboðstruflana voru vanmetin í fyrri spám Seðlabankans, en kostnaður við gámaflutninga milli landa er nú orðinn þrefalt meiri en hann var að meðaltali fyrir tveimur árum síðan. Karen telur að það taki nokkurn tíma að vinda ofan af þessum frambooðstruflunum og gætu áhrifin af þeim varað fram eftir ári.
Væntingar hækka og kjölfestan veikist
Eftir því sem verðbólgan hefur reynst þrálátari hafa verðbólguvæntingar til skemmri tíma einnig hækkað, en nú búast flestir við 3-4 prósenta verðbólgu á næstunni. Heimili búast svo við að verðbólgan verði 3 prósent næstu fimm árin, auk þess sem skuldabréfaeigendur búast við svipaðri verðbólgu næstu tíu árin.
Samkvæmt Karen gæti þessi þróun bent til þess að kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið hafi veikst að undanförnu.
Mikil óvissa um verðbólguhorfur
Seðlabankinn spáir nú að verðbólga mælist að meðaltali 4,4 prósent í apríl, maí og júlí, en lækki svo nokkuð á haustmánuðunum. Ekki er búist við að verðbólgan verði komin í markmið bankans fyrr en um mitt næsta ár, aðallega vegna verðhækkunar innfluttrar vöru og þjónustu. Þó segir Karen að mikil óvissa sé um verðbólguhorfur, sem ráðast af krafti efnahagsbatans og langtímaáhrifum farsóttarinnar. „Talið er að meiri líkur séu á að verðbólga á næstunni sé vanmetin í spánni en að hún sé ofmetin,“ skrifaði Karen.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smellla hér