„Hvers vegna þarf þrefalt hærri stýrivexti hér en í Evrópu til að vinna gegn verðbólgu sem er sú næst lægsta í álfunni?“
Þannig hljóðaði spurning Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6 prósent. Stýrivextir, sem ákvarða fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, hafa nú verið hækkaðir við síðustu tíu vaxtaákvarðanir nefndarinnar, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra.
Þorbjörg tók dæmi um birtingarmynd þeirrar þróunar sem hækkun stýrivaxta, tíu sinnum í röð, hefur haft. Þannig hefur greiðslubyrði heimilis með 50 milljón króna óverðtryggt land til 40 ára á breytilegum vöxtum hækkað úr 180 krónum á mánuði í 330 þúsund krónur. Greiðslubyrðin hefur því aukist um 150 þúsund krónur á mánuði.
„Horfurnar eru dökkar, áhrifin á heimilin eru þung, á fyrirtækin og allt samfélagið. Og auðvitað er þessi staða erfið inn í kjarasamninga,“ sagði Þorbjörg. Hún benti á að vextir hér á landi eru hærri en í Evrópu þrátt fyrir að verðbólgan sé það ekki.
Þá sagði hún útlit fyrir að húsnæðisvextir verði áfram töluvert hærri á Íslandi en í nágrannaríkjunum. „Þetta er gömul saga og ný, saga sem gleymdist að ræða þegar lágvaxaskeiðið svokallaða var boðað og ástæðan er ekki bara sú að þjóðin leyfi sér að fara í sumarfrí á sólina á Tenerife. Verðbólgan var ekki fundin upp á Tene. En vegna þessara íslensku aðstæðna er líka aukin þörf á aðhaldi í ríkisfjármálum, á ábyrgri efnahagsstjórn, án hennar eru heimili landsins dæmd til að bera eina þungann af þessu verðbólguskeiði.“
Þorbjörg spurði í framhaldinu forsætisráðherra hvers vegna stýrivextir hér þurfi að vera þrefalt hærri en í Evrópu til að vinna gegn verðbólgu sem er sú næst lægsta í álfunni?
Tveir valkostir í boði: Seðlabankinn eða Evrópusambandið
Verðbólga jókst á ný í október og mælist nú 9,4 prósent. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að gert er ráð fyrir því verðbólgan verði 9,4 prósent að meðaltali núna á síðasta ársfjórðungi, en að hún taki smám saman að hjaðna og verði komin niður í 4,5 prósent á síðasta ársfjórðungi næsta árs.
Katrín sagði að ræða þurfi málið í stærra samhengi.
„Ísland er lítið hagkerfi, okkar gjaldmiðill er lítill, við sjáum meiri sveiflur í slíku hagkerfi en stærri hagkerfum. Það getur verið kostur og það getur verið galli.“
„Ef við ætlum að ræða um gjaldmiðil og peningastefnu þurfum við að ræða stóra samhengið.“
Katrín sagði tvo valkosti í boði. Annars vegar að styrkja þau tæki sem til eru til þess að stýra íslenska hagkerfinu eins og gert hefur verið, til að mynda með því að veita Seðlabankanum auknar heimildir til inngripa á húsnæðismarkaði.
Hins vegar er valkosturinn aðilda að Evrópusambandinu og upptaka evru. „Það felur auðvitað miklu meira í sér en eingöngu breytingar á peningastefnunni, það er bara miklu stærra mál en svo.“
Katrín fundaði með aðilum vinnumarkaðarins í morgun til að ræða áhrif vaxtahækkunarinnar á kjaraviðræður sem nú standa yfir. „Ég tel að það væri mikill hagur okkar allra, almennings í þessu landi, ef unnt verður að halda frið á vinnumarkaði. Í þeim efnum hafa stjórnvöld lýst sig reiðubúin til samtals, til þess að leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir mögulegum kjarasamningum.“
En Katrín ítrekaði að ef ræða ætti peningastefnu almennt þurfi að ræða það í stærra samhengi.
Erum að ræða stóru myndina
Þorbjörg Sigríður sagði að það væri hún að gera. „Gjaldmiðillinn er hluti af stóru myndinni, tvímælalaust, og um hann er mjög lítið rætt. Það hefur verið rætt um það áratugum saman að styrkja þessi tæki sem hæstv. forsætisráðherra vísar til. Staðan er eftir sem áður alltaf sú, og hefur verið lengi, að við búum við þetta vaxtastig sem er bein afleiðing af því hver gjaldmiðillinn okkar er,“ sagði Þorbjörg, sem sagðist sakna þess að heyra ekki svar forsætisráðherra við spurningunni af hverju þörf er á þrefalt hærri stýrivöxtum hér en annars staðar í Evrópu.
Þorbjörg sagði ríkisstjórnina bera mikla ábyrgð á að halda verðbólgunni í skefjum með aðhaldi í ríkisrekstrinum með því að vera ekki í þensluhvetjandi aðgerðum. „Ríkisstjórnin verður að axla sinn hlut í þessu máli. Eitt sterkasta framlag hæstv. forsætisráðherra núna gagnvart kjarasamningunum væri að stýra ríkisfjármálunum með þeim hætti að markmið um að ná tökum á verðbólgunni geti náðst fram,“ sagði Þorbjörg.
Katrín sagði ríkisstjórnina vera að leggja sitt af mörkum til þess að beita aðhaldi í ríkisrekstri í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fram.
„Seðlabankinn hefur verið að beita sínum tækjum og ég vil bara ítreka það að Seðlabankinn er sjálfstæður. Hann hefur verið að beita stýrivaxtatækinu vegna löggjafar sem kom til að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar. Þá fékk Seðlabankinn víðtækari stýritæki gagnvart húsnæðismarkaðnum og það er stórmál þegar kemur að hagstjórn í þessu landi, stórmál sem ekki hefur verið nægjanlega rætt hér í þessum sal né annars staðar,“ sagði Katrín.