Innstæður almennings og fyrirtækja sem bundnar eru á verðtryggðum sparireikningum lækkuðu um síðustu mánaðamót vegna þess að vísitala neysluverðs lækkaði í janúar. Vísitalan, sem mælir verðbólgu í landinu, er metin til breytinga á verðtryggðum innstæðum og lánum tveimur mánuðum eftir birtingu hjá Hagstofunni.
Fjallað var um þróunina í Morgunblaðinu í gær og haft var eftir Birni Berg Gunnarssyni, fræðslustjóra Íslandsbanka, að undanfarna áratugi hafi það gerst margoft að verðbólga sé neikvæð milli mánaða. Aftur á móti hafi verðhjöðnun aldrei orðið yfir heilt ár. „Alveg eins og innstæðan hækkar þegar verðbólga er mikil lækkar hún þegar hún er neikvæð. Í þessu samhengi má benda á að vertryggð húsnæðislán lækka þegar vísitalan lækkar,“ segir Björn í samtali við blaðið.
Einungis tímabundin lækkun
Verðtryggðir innlánsreikningar eru bundnir til 36 mánaða að lágmarki. Þeir halda verðgildi sínu í takt við verðbólguna og getur innstæðan þannig lækkað milli mánaða, mælist verðhjöðnun milli mánaða. Það hefur raunar fjórum sinnum gerst á síðastliðnum tólf mánuðum, í júlí (-0,2%), í september (-0,1%), í nóvember (-0,5%) og nú í janúar (-0,7%). Verðbólga yfir heilt ár er aftur á móti 0,8 prósent. Á einu ári hefur innstæðan því hækkað um 0,8 prósent, auk vaxta.
Tengt efni:
Verðhjöðnun í Danmörku - Ólíklegt á Íslandi.
Samanburður á sparnaðarleiðum bankanna.
Bogi útskýrir vísitölu neysluverðs.