„Í einhverjum skilningi þá er vandi loftslagsmálanna sá að við verðum á einhvern hátt að endurskoða afstöðu okkar til hins góða – endurskoða afstöðu okkar til hins eftirsóknarverða ef við ætlum að búa í haginn fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.“
Þetta kom fram í máli Guðna Elíssonar, prófessors í íslensku við Háskóla Íslands og stofnanda verkefnisins Earth101, á loftslagsdeginum, ráðstefnu sem Umhverfisstofnun stóð fyrir í Hörpu í síðustu viku.
Erindi Guðna bar heitið „Maðurinn er dýr sem raskar jafnvægi. Um það sem stefnir upp og það sem stefnir niður“. Hann hóf mál sitt á því að segja að það gæti verið snúið að halda fyrirlestur með gröfum því einhvern tímann hefði hann heyrt að ákveðinn fjöldi áhorfanda tapaðist í hvert skiptið sem sýnd væru gröf.
Erfitt að fara „frá vitsmununum yfir í hjartastöðvarnar“
Guðni sagði jafnframt að þegar rætt væri um loftslagsmálin þá væri stundum erfitt að fara „frá vitsmununum yfir í hjartastöðvarnar“. Það væri erfitt að tileinka sér gröfin „á einhvers konar hátt sem manneskja“.
Las hann í framhaldinu upp ljóð eftir eiginkonu sinnar Öldu Björk Valdimarsdóttur en hún gaf nýlega út ljóðabók þar sem hún veltir fyrir sér hnitakerfi vísindanna út frá öðruvísi sjónarhorni.
Hann spurði hvað það merkti að segja að maðurinn væri dýr sem raskaði jafnvægi. „Hvað þýðir það að tala um jafnvægisleit í þessu samhengi?“
Hann setti á skjáinn graf sem hann kallaði 800.000 ár af jafnvægi. Það sýndi magn koltvísýrings í andrúmsloftinu á þessum tíma. Grafið sýndi að „dalirnir“ væru ísaldir og svo stutt hlýindaskeið inn á milli.
„Ef við vildum tala um jafnvægi út frá jafnvel enn stærri hlutum – tala um stóra jafnvægið og stóru breytingarnar – þá gætum við haldið út þennan ás áttatíu sinnum lengra alveg út í sjó og þá kæmum við að síðasta stóra jafnvægisrofinu, ekki satt, þegar loftsteinninn skall á jörðinni og þurrkaði út risaeðlurnar,“ sagði hann og benti á lárétta ásinn.
„En þetta er sem sagt jörð í tilteknu jafnvægi. Þetta reyndi ekki mikið á vistkerfi jarðarinnar en það má kannski segja sem svo að ísaldir séu óhentugar fyrir okkur, mannskepnuna. Þær henta okkur ekki vel þegar við erum að íhuga lífsskilyrðin á jörðinni og það vill svo vel til að við verðum til sem tegund einhvers staðar hérna á þriðjungi ássins.
Kannski má segja ennfrekar að við verðum til síðustu 10.000 árin en þá hefst nýja hlýindaskeiðið upp af akuryrkju, borgarmyndun, hægt og rólega. Við búum til ritmál og svo getum við sagt að þar sem 0 er og 2008, hjá þessum litla punkti þá verðum við líka til sem einstaklingar því að við þurfum ekki að fara nema svona 2.500 ár aftur í tímann til þess að finna uppruna flestra trúarbragða, heimspekinnar, bókmenntanna og tónlistarinnar. Vísindin verða til á þessum tíma, það er að segja allt sem við notum í rauninni til að skilgreina okkur sem einstaklinga verður til á þessum tíma.“
Alltaf verið sveiflur en samt stöðugleiki
Guðni sagði að vissulega hefðu verið sveiflur í hitafarinu síðustu 10.000 árin – við gerðum alltaf ráð fyrir sveiflum. „Við söfnum matvælum vegna þess að við gerum ráð fyrir hörðum árum. Trúarbrögðin ganga svolítið út á þetta, ekki satt? Vondu árin og góðu árin, þau ganga út á fantasíuna um jafnvægi. Í Eden forðum var eilíft vor, ekki of heitt, ekki of kalt. Það var nægur matur og maður þurfti ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að vera étinn sjálfur því að það voru allir vegan í Eden.
En að sama skapi þá gátum við svolítið treyst á veðurfarið. Við gátum hannað okkar heim í kringum stabílt veðurfar. Við vissum hvar við áttum að rækta hveiti, hvar við áttum að rækta bygg og hrísgrjón. Borgarmyndun verður einhvers staðar nálægt strandlengjunni þannig að við getum farið að stunda fiskveiðar og svo framvegis. Og úr þessu öllu rís svo menningin okkar líka, út úr þessum stöðugleika, út úr þessari hugmynd og tilfinningu fyrir jafnvægi.“
Breytingarnar verða að vera meiri og róttækari
Guðni benti á að mannkynið raskaði núna þessu jafnvægi. „Við erum á leiðinni upp á hraða sem er slíkur að hann er áhyggjuefni.“ Hann sagði að gamla jafnvægið myndi raskast varanlega og á svo róttækan hátt að ekki yrði aftur snúið.
„Þessar miklu breytingar þær gera það líka að verkum að við þurfum á einhvern hátt að breyta okkar venjubundna lífi, okkar daglegu tilvist, og ef við hugsum um þetta sem einhvers konar leið til að auka á velmegun okkar þá kemur líka skýringin á því, því þetta er uppbyggingin á efnahagnum.
Þá sjáum við líka hvers vegna við erum hikandi við það að stoppa og eftir því sem við frestum lengur og lengur því að takast á við vandann þá verða breytingarnar sem við verðum að gera á okkar samfélögum meiri og róttækari,“ sagði hann.
Guðni sagði jafnframt að vitneskjan um að draga þyrfti úr losun gróðurhúsategunda hefði verið til staðar lengi og þess vegna væri iðulega horft til grænu tækniframfaranna til að leysa málin. „Vesenið við þær liggur einfaldlega í því að ef við hugsum um grænu orkuuppbygginguna þá nær hún aldrei að dekka umframorkuþörfina sem verður á hverju ári, það er að segja með þeirri veldisaukningu sem verður í til dæmis vind- og sólarorku þá náum við ekki að dekka viðbótarorkuþörfina. Á hverju ári losum við meira af jarðefnaeldsneyti en áður sem er þvert á það sem við búumst við þegar við ímyndum okkur það að nýja orkan leysi þá gömlu af hólmi.“
Í einhverjum skilningi verður heilbrigðiskerfið að vandamáli
Guðni fjallaði í erindi sínu um sementsnotkun en hann sagði að hún væri um það bil 5 prósent af heildarlosun heimsins. „Vegna þess að í Bandaríkjunum á 20. öldinni þá losuðu þeir í kringum 4,5 gígatonn af koltvísýringi í gegnum sementið og þið getið kannski ímyndað ykkur hvað þetta er mikið af sementi. Ég sem bókmenntafræðingur get sagt að þetta er rosalega mikið sement,“ sagði hann og uppskar hlátur.
„En í samanburðinum þá losuðu Kínverjar milli 2011 og 2013 6,6 gígatonn sem er þrjátíu sinnum meira af rosalega miklu sementi“ sagði hann og spurði í framhaldinu í hvað allt þetta sement færi.
„Það fer í það að búa til nútímainnviði í stóru borgirnar, í menntakerfið, í flugvellina, í vegina og í heilbrigðiskerfið. Meira að segja heilbrigðiskerfi verður problematískt í þessu samhengi, vegna þess til dæmis að bókmenntafræðingar sem lifa fram að fertugu losa ekki eins mikið og bókmenntafræðingar sem ná áttatíu og fimm ára aldri, þannig að í einhverjum skilningi orðsins verður heilbrigðiskerfið að vandamáli ef það fylgir ekki ákveðinn annar skilningur.“
Hagvaxtartrúin fráleit
Guðni sagði jafnframt að margir stýrðust af þeirri trú að ekkert gæti komið fyrir þá – þetta væri trú á hagvöxtinn og að allt myndi ganga upp.
Hann lauk erindi sínu á því að lesa upp annað ljóð eftir eiginkonu sína, Öldu Björk.
„Við getum alveg velt því fyrir okkur hvernig til dæmis hagvaxtartrúin er á einhvern hátt jafn fráleit og hugmyndin sem birtist í Völuspá um jörð sem rís eftir heimsslitin eða hugmyndin um endurkomu Krists sem komi niður til jarðarinnar og leysti okkur frá öllu böli. En þetta er þá í einhverjum skilningi orðsins trúin sem felst í eftirsókninni eftir hinu góða,“ sagði Guðni og greindi frá því að hann endaði flesta fyrirlestra sína á því að ræða hamingjuleitina og á tilvitnun frá Mery Wollstonecraft:
„Lítill vafi leikur á að enginn velur illskuna illskunnar vegna. Menn villast bara á henni og hamingjunni, hinu góða sem þeir leita.“
Guðni sagði að í einhverjum skilningi orðsins þá væri vandi loftslagsmálanna sá að við yrðum á einhvern hátt að endurskoða afstöðu okkar til hins góða. Endurskoða afstöðu okkar til hins eftirsóknarverða ef við ætluðum að búa í haginn fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.