Samkvæmt heimildum Kjarnans horfir Starfsgreinasambandið (SGS) til þess að geta gengið til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í seinni hluta þessa mánaðar, og verði þær samþykktar þá gætu verkföll hafist í kringum 10. apríl, það er skömmu eftir pásku. Mikil eining er meðal sextán aðildarfélaga SGS, víða um landið, og er fastlega reiknað með því að verkfallsaðgerðir verði samþykktar.
Samningaviðræður SGS og Samtaka atvinnulífsins (SA) eru sigldar í strand, og var þeim slitið í gær. SGS hefur sett fram kröfu um lækkun lægstu launa úr 214 þúsund í 300 þúsund, og að launamenn njóti góðs af því þegar vel gengur, meðal annars í gjaldeyrisskapandi greinum. SA hefur ekki sýnt neinn vilja til þess að verða við þessum kröfu, og hafa samtökin einblínt að laun geti aðeins hækkað um 3,5 til fimm prósent.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í morgun, hefur það komið til tals í viðræðum SA og SGS að gerðar verði breytingar á húsnæðiskerfi landsmanna, og sveitarfélög og stjórnvöld þannig kölluð að samningaborðinu. SGS líta á þetta sem algjörlega aðskilin mál, og að samningar um kaup og kjör snúist um launin sjálf en ekki húsnæðismálin.
Ljóst er að verkföll hjá stéttarfélögum sem tilheyra SGS geta haft víðtæk áhrif, en félagsmenn eru meðal annars fjölmennir í bæði sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Félagsmenn eru á þrettánda þúsund og eru aðildarfélögin AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Verkalýðsfélag Þórshafnar.