Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning á almennum vinnumarkaði.
Í samhljóða tilkynningum landssamtakanna tveggja segir að ljóst sé að samstarf LÍV og SGS muni „skila auknum slagkrafti í kjarasamningsviðræðurnar“ en landssamtökin eru leidd af þeim Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR og Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness.
Um er að ræða þau tvö stærstu af alls fimm landssamtökum launafólks á almennum vinnumarkaði og nær samstarfið til hátt í 90 þúsund einstaklinga sem starfa á almennum vinnumarkaði innan alls tuttugu stéttarfélaga.
„Mjög ríkur vilji er innan beggja sambanda að gera sameiginlega atlögu að nýjum kjarasamningi þar sem áherslan verður á að auka kaupmátt og tryggja stöðugleika í efnahagslífinu,“ segir í tilkynningunni frá LÍV og SGS.
Ragnar Þór kallaði þetta „ofurbandalag“ árið 2018
Hugmyndir voru uppi um samflot LÍV og SGS fyrir kjaraviðræðnalotuna sem endaði með gerð lífskjarasamningsins árið 2019. Ragnar Þór viðraði hugmyndina þá í færslu á Facebook og kallaði slíkt samstarf „ofurbandalag“.
Af „ofurbandalaginu“ í þeirri mynd varð hins vegar ekki og æxluðust málin meira að segja að lokum svo að VR, sem er langstærsta stéttarfélagið innan LÍV, var ekki í samfloti með hinum tíu félögunum innan LÍV í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.
Hins vegar má segja að ákveðinn vísir að því samstarfi sem nú hefur raungerst hafi orðið að veruleika þá þegar, enda fóru VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness í samflot í kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.