Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins UKIP, segir að versta kynþáttahatrið sem á sér stað í Bretlandi sé hatur Skota á Englendingum.
Þetta sagði hann í heimsókn í Hartlepool í dag, þar sem hann var spurður út í skoðanakönnun sem sýndi að 28 prósent stuðningsmanna flokksins viðurkenndu að hafa fordóma gegn fólki af öðrum kynþáttum en það er sjálft. Farage sagði að hann vildi ekki atkvæði rasista og sagði að til væru aðrir flokkar sem fólk gæti kosið í þeim erindagjörðum.
Hann ræddi málið við BBC Radio 5, útvarpsstöð Breska ríkisútvarpsins. Þá sagði hann: „Mesta kynþáttahatrið sem ég hef séð í breskum stjórnmálum á sér stað norðan við landamærin hjá Skoska þjóðarflokknum (SNP), þar sem hatrið gegn Englandi er að ná ótrúlegum hæðum og ég myndi halda að ef BBC hefur áhyggjur af kynþáttahatri ætti stofnunin að líta þangað...Skoski þjóðarflokkurinn er opinberlega rasískur. Andúðin gegn Englendingum og orðbragðið sem er notað um og gagnvart Englendingum eru algjörlega ótrúleg.“
Hann sagði síðar að pólitískir andstæðingar UKIP hefðu ranglega dæmt flokkinn sem rasískan, og að þeim dómum hefði betur verið beint að SNP. Þegar hann var svo spurður hvort hann væri ekki í afneitun gagnvart kynþáttahatri innan flokksins sagði hann fjölmiðla vera með það á heilanum að reyna að mála flokkinn upp sem slíkan flokk, og að hann væri orðinn þreyttur á því. „Það er með öllu óréttlætanlegt, afskaplega ósanngjarnt og leiðir til þess að fólk sem er sammála UKIP er nánast feimið við að tala um það.“