Á sama tíma og verið er að aflétta grímuskyldu og samkomutakmörkunum í Evrópu og Bandaríkjunum eru mörg lönd í Suður-Ameríku að fást við eina skæðustu bylgju faraldurs COVID-19 hingað til. Í álfunni er dánartíðni af völdum sjúkdómsins nú átta sinnum hærri en að meðaltali í heiminum öllum.
Skýringarnar á þessari stöðu er margar, m.a. mikil útbreiðsla nýrri afbrigða veirunnar sem eru meira smitandi en önnur. Þá eru heilbrigðiskerfi landanna flest veikbyggð og fátækt á mörgum svæðum mikil og útbreidd. Í þriðja lagi hafa stjórnvöld í sumum löndum Suður-Ameríku einfaldlega lagt árar í bát í baráttunni við faraldurinn og í enn öðrum er pólitísk ólga og jafnvel upplausn.
Dauðsföll vegna COVID-19 eru nú hvergi hlutfallslega fleiri en í Paragvæ. Heilbrigðiskerfið var veikt fyrir og er nú hrunið víða. Þá er fátækt mjög útbreidd. Í síðustu viku, svo dæmi sé tekið, var dánartíðnin vegna sjúkdómsins 18 á hverja milljón íbúa samanborið við 2,7 á Indlandi og 0,14 í Bretlandi.
Augum umheimsins hefur í fréttum síðustu vikna verið beint að Indlandi þar sem mjög skæð bylgja gekk yfir en er nú tekin að dala. Á sama tíma hefur mannfall í Paragvæ, Argentínu, Úrúgvæ, Kólumbíu, Brasilíu og Perú verið gríðarlegt en ekki farið eins hátt.
Sprenging í smitum
Í upphafi heimsfaraldursins á síðasta ári var stjórnvöldum í Paragvæ og Úrúgvæ hrósað fyrir snör viðbrögð sín. En frá því í mars í ár, um ári eftir að faraldurinn hófst, hefur orðið sprenging í fjölda smita sem helst er rakið til hins skæða brasilíska afbrigðis veirunnar sem nú er kallað gamma-afbrigðið af vísindamönnum. Á sama tíma hafði verið slakað á samkomutakmörkunum í löndunum tveimur sem og víðar í álfunni.
Bólusetningarherferðin var hröðust í Úrúgvæ af öllum löndum Suður-Ameríku. Það kom þó ekki í veg fyrir stórar og banvænar hópsýkingar.
Í nýlegri fréttaskýringu Guardian um stöðuna í álfunni er rifjað upp að Argentínumönnum hafi einnig verið hrósað fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Þar voru snemma settar á miklar takmarkanir á samkomum og almenningur fór samviskusamlega eftir þeim. En svo leið tíminn og knýjandi þörf fólks til að afla sér tekna og krafa um að koma hjólum atvinnulífsins í gang varð til þess að takmörkunum var aflétt á svipuðum tíma og skæðari afbrigði voru að breiðast hratt út. Á þessari stundu er COVID-19 helsta banamein þjóðarinnar og mun fleiri, eða yfir 500 á dag, látast úr þeim sjúkdómi en t.d. hjartasjúkdómum eða krabbameinum.
Fátækt, sem farið hefur vaxandi í Argentínu síðasta áratuginn, er einn þeirra þátta sem leikið hefur stórt hlutverk í því hversu skæður faraldurinn hefur orðið. Verðbólga þar er ein sú hæsta í heimi.
Í Brasilíu hefur yfir hálf milljón manna dáið vegna COVID-19 samkvæmt opinberum tölum. Þar í landi er forsetanum, Jair Bolsonaro, ítrekað kennt um hvernig komið sé fyrir þjóðinni. Hann gerði lítið úr sjúkdómnum allt frá upphafi, sagði hann „aðeins flensu“ og brást því hlutverki að grípa til aðgerða í tæka tíð til að sporna gegn útbreiðslunni. Hann sætir nú rannsókn vegna meintra embættisglapa vegna viðbragðsleysis síns.
Þá er ástandið í Perú slæmt um þessar mundir. Bóluefni er af skornum skammti og önnur bylgja faraldursins var verri en sú fyrsta. Í henni var aftur gripið til samkomutakarkana enda sjúkrahús á heljarþröm vegna álags. Ólga er í stjórnmálum landsins og ekki bætti úr skák að fyrr á árinu kom í ljós að þáverandi forseti og næstu samstarfsmenn hans fengu bólusetningu á laun. Innan við tíu prósent fullorðinna í landinu eru nú bólusett en nýr forseti hefur heitið átaki í þeim efnum. Dánartíðnin af völdum COVID-19 hefur farið lækkandi undanfarnar vikur en í grein Guardian kemur fram að eftir sitji reiði og gremja margra borgara.
Skattahækkunum harðlega mótmælt
Í Kólumbíu hafa nú yfir 100 þúsund manns látið lífið vegna COVID-19 og er landið hið tíunda til að fara yfir þann þröskuld. Fjöldamótmæli vegna skattahækkana á sama tíma og dauðsföllum fjölgar eru meira áberandi en fjöldabólusetningar. Daglega deyja í kringum 500 manns úr sjúkdómnum í landinu og á mánudag létust 648, sem var metfjöldi á einum degi, og á miðvikudag voru dauðsföllin 720. Þetta eru met sem enginn vill slá. Innan við tíu prósent íbúanna eru fullbólusettir. Kólumbíumenn eru yfir 50 milljónir talsins.
Ástandið í Kólumbíu hefur farið stigversnandi vikum og mánuðum saman. Borgarstjóri höfuðborgarinnar Bogatá bað í vor íbúana að undirbúa sig fyrir „verstu tvær vikur lífs“ síns. Þær vikur hafa dregist á langinn því tilfellum er enn að fjölga og hafa undanfarið verið um og yfir 25 þúsund á dag.
Þessi þriðja bylgja faraldursins hefur sett allt samfélagið á hvolf og í uppnám. Hún er þegar orðin sú skæðasta sem skollið hefur á landinu og er líklega sú skæðasta sem fyrirfinnst í heiminum í dag.
Í grein New York Times um stöðu faraldursins í Suður-Ameríku segir að hann afhjúpi þá gjá sem er á milli álfunnar og ríkari þjóða á borð við Ísrael, Bandaríkin og Bretland. Í þeim löndum hefur verið hægt að tryggja stóra samninga við lyfjafyrirtæki um bóluefni á meðan ríki á borð við þau sem að framan er fjallað um berjast enn við útbreitt smit og jafnvel faraldra með tilheyrandi mannfalli.
Af þeim tíu ríkjum heims þar sem dánartíðni vegna COVID-10 er nú hæst eru sjö í Suður-Ameríku.