Þrátt fyrir að ríkisstjórnin njóti stuðnings meirihluta landsmanna, samkvæmt nýjustu könnun MMR, fengju flokkarnir þrír sem hana mynda í dag hvorki þann meirihluta, hvorki þegar horft er til samanlagðs fylgis né dreifingar þingsæta . Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem birt er í Morgunblaðinu í dag, fengi Sjálfstæðisflokkur 16 þingsæti, Vinstri græn 7 og Framsóknarflokkur 8. Samanlagt fylgi þeirra yrði, ef kosið yrði til Alþingis nú, 48 prósent.
Samkvæmt könnuninni myndu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur halda sama fjölda þingsæta og í síðustu kosningum en Vinstri græn hins vegar tapa fjórum. Sjálfstæðisflokkur er með 24,6 prósent fylgi, sem er nánast það sama og í þingkosningunum 2017 og Framsókn 12,9 prósent fylgi sem er 2,2 prósentustigum hærra en í síðustu kosningum. Vinstri græn eru hins vegar með 10,5 prósent fylgi í könnun MMR en það var 16,9 prósent í kosningunum 2017.
Í frétt Morgunblaðsins segir að samkvæmt könnuninni, segist 55 prósent þátttakenda engu að síður styðja ríkisstjórnina.
Níu flokkar ná inn á þing. Samfylkingin myndi bæta við sig tveimur þingsætum frá síðustu kosningum, fá níu nú (13,1 prósent fylgi). Viðreisn myndi einnig bæta við sig og ná sex mönnum inn á þing og sömu sögu er að segja um Pírata sem eru nú með 12,2 prósent fylgi og fengju átta þingsæti, tveimur fleiri en í kosningunum 2017. Flokkur fólksins er nú með 5,1 prósent fylgi og fengi þrjá þingmenn. Miðflokkurinn fengi svipað fylgi og sama fjölda þingsæta en myndi tapa sex frá síðustu kosningum.
Sósíalistar eru með 5,6 prósent fylgi og fengju þrjú þingsæti.
Könnun MMR var gerð 8.-14. júlí og var hluti af spurningavagni fyrirtækisins. Í úrtakinu voru einstaklingar átján ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MME sem valdir eru úr þjóðskrá. 945 manns svöruðu könnuninni segir í Morgunblaðinu.
Könnunin er sú fyrsta sem gerð er í samstarfi MMR við Morgunblaðið og MMR vegna þingkosninganna sem fram fara í lok september.