„Í okkar huga snýst þetta ekkert endilega um vinstri eða hægri. Miklu frekar um sanngirni og tækifæri. Við ætlum ekki að vera rödd sundrungar, heldur rödd samstillts samfélags. Því við trúum því, af fullri einlægni að saman gerum við samfélagið okkar betra.“
Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar á landsþingi flokksins í dag. Fór hún yfir þau mál sem flokkurinn náði í gegn á kjörtímabilinu og framtíðarsýn hans.
Einangrunarsinnarnir pakka í vörn
Þorgerður Katrín fjallaði meðal annars um Evrópumál í ávarpi sínu. „Ég velti því stundum fyrir mér þegar rætt er um Evrópumálin hér á Íslandi og mögulega aðild að Evrópusambandinu hvernig standi á því að ríkisstjórnarflokkarnir hrökkva alltaf í baklás og fari með möntruna um að málið sé ekki á dagskrá.
Nú er það ekki svo að lyklavöld að ráðuneytum geri menn að dagskrárstjórum í samfélagsumræðunni, það er auðvitað hugsanavilla í lýðræðissamfélagi. En það er einmitt þessi hugsanavilla sem er svo hættuleg. Að vilja ekki ræða erfið mál og útkljá með lýðræðislegum hætti. Hvernig klára siðaðar þjóðir sín deilumál? Jú, með samningum eða kosningu. Og hvernig leggjum við til að þetta deiluefni sé leyst? Að það hefjist með þjóðaratkvæði, síðan er samið í vönduðu, skilgreindu ferli og svo er önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn. Þjóðin kýs tvisvar í þessu ferli. Slík lýðræðisveisla er stjórnarflokkunum hins vegar ekki að skapi.“
Þorgerður Katrín sagði að í stað þess að hefja þessa vegferð og leyfa almenningi að ráða för pökkuðu einangrunarsinnarnir í vörn og þyldu dómsdagsspá um spænska togara og endalok fullveldisins, sem margoft væri búið að hrekja, sjálfir með krónuna eins og myllustein um hálsinn.
„Og ég skal vera alveg skýr, ef svo ólíklega vildi til að samningurinn við ESB yrði fjandsamlegur íslenskum hagsmunum og auðlindir okkar í hættu, þá yrði Viðreisn fyrsti flokkurinn til að hafna slíkum samningi. Við viljum nefnilega ekki semja samningsins vegna, heldur til að bæta lífskjör á Íslandi.“
„Ekkert múður hér“
Þorgerður Katrín telur að kosningarnar muni snúast að miklu leyti um það hvort Íslendingar fái ríkisstjórn sem þori að fara í mikilvægar kerfisbreytingar sem tryggi eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni með tímabundnum samningum og fyrirsjáanleika fyrir útgerðina – og sanngjarnari skiptingu af tekjum sjávarauðlindarinnar.
„Það gerum við best með því að treysta markaðnum til að ákveða verðmæti auðlindarinnar. Ekkert múður hér. Mér sýnist reyndar að þjóðin sé okkur sammála þótt þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi nú tekið að sér starf blaðafulltrúa útgerðanna,“ sagði hún.
Til þess að tryggja Viðreisn brautargengi þyrftu þau að láta rödd sína heyrast hátt og „yfirgnæfa kliðinn í fuglabjarginu og koma í veg fyrir að ránfuglar valdi þar usla og óöryggi. Við vitum að lífsbaráttan í samfélaginu snýst ekki bara um lífsafkomu og öryggi, heldur líka um stefnu og framtíðarsýn í grundvallarmálum,“ sagði hún að lokum.