Fjölbreytileiki er í fyrirrúmi í öllum störfum sem Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir tekur að sér. Hún situr í stjórnum smærri og stærri fyrirtækja og segir hlutverk stjórna það sama í öllum fyrirtækjum þótt viðfangsefnin séu ólík. Mikilvægt sé að fá fjölbreyttar raddir að borðinu, enda geti fólk ekki endurspeglað reynslu sem það hafi ekki sjálft. Hún vill að Ísland nýti tækifærin sem felast í núverandi efnahagsástandi og laði til sín þekkingarstarfsmenn erlendis frá.
Sigurlína er í viðtali í áramótablaði Vísbendingar. Í blaðinu er sjónum sérstaklega beint að fjölbreytni, jafnrétti og því hvernig unnt er að nýta hæfni og krafta breiðari hóps í viðskiptalífinu, ekki síst í stjórnum og stjórnunarstöðum, en ekki bara hæfni og krafta þeirra sem eru líkir þeim sem stýra fyrir.
Hún bendir á í viðtalinu að það sé varasamt að of þröngir eða einsleitir hópar taki stórar ákvarðanir, enda byggir ákvarðanir einstaklinga ávalt á reynslu þeirra sjálfra að einhverju leyti. Fólk geti ekki endurspeglað reynslu sem það hefur ekki. Þá segir hún mikilvægt að nýta þá stöðu sem skapast hefur með uppsögnum stórra tæknifyrirtækja á hæfu starfsfólki. Tækifæri geti falist í því fyrir Ísland að laða þekkingarstarfsmenn hingað til lands.
„Tæknifyrirtæki sem hafa verið með þúsundir starfsmanna hafa verið að skera talsvert niður. Þarna er hópur af fólki, mjög hæfu fólki, sem kannski hefur misst vinnuna og það er þörf fyrir þetta vinnuafl á Íslandi. ... Í tölvuleikjageiranum til dæmis er mikil samkeppni um starfsfólk og það hefur þurft að sækja mikið af sérfræðingum og koma með þekkingu þeirra til Íslands. Auðvitað hefur orðið til líka mjög mikið af íslenskum sérfræðingum en það er líka bara gott fyrir öll samfélög að fá inn nýtt blóð. Fá inn fólk sem kemur úr öðru umhverfi, frá öðrum fyrirtækjum, hugsar öðruvísi og kemur með ferskar hugmyndir.“
Sautján ár milli ráðninga á konu í forstjórastól í skráðu fyrirtæki
Í áramótablaðinu eru greinar frá ýmsum af helstu sérfræðingum landsins á sviði hagfræði og viðskiptafræði. Ásta Dís Óladóttir dósent við viðskiptafræðideild og stjórnarformaður MBA náms við HÍ fjallar um rannsóknir á kynjahlutföllum í leiðtogastörfum í viðskiptalífinu og upplifun kvenna af ráðningarferli í stjórnunarstörf.
Í grein hennar kemur fram að sautján ár liður á milli ráðninga á milli ráðninga á konu í forstjórastól í skráðu fyrirtæki hér á landi. „Karlmenn sem gegnt hafa stöðu forstjóra í skráðum félögum skipta hundruðum en einungis sex konur hafa gegnt stöðu forstjóra í skráðu félagi frá upphafi,“ segir Ásta Dís í grein sinni í áramótablaðinu.
Vinnustaðahúsverk líklegri til að lenda á konum
Á hverjum vinnustað eru unnin ýmis verk sem ekki leiða til framgangs í starfi. Í grein sinni í áramótablaðinu fjallar Guðrún Johnsen lektor við CBS um svokölluð „vinnustaðahúsverk“ en þau lenda í meira mæli á konum en körlum.
„Þegar skoðað er hversu margar stundir konur í yfirmannstöðum vinna að verkefnum sem stuðla að framgangi má glögglega sjá að þær vinna nánast jafnmikið og karlkyns kollegar í sömu stöðum – en þær vinna 250 fleiri klukkustundir að verkefnum sem ekki leiða til starfsframa en karlarnir. ... Jafnari dreifing vinnustaðahúsverka er mikilvægur þáttur í því að við náum að brjótast út úr óréttlæti og óskilvirkni þegar kemur að nýtingu mannauðs. Tækifæri glatast í viðskiptum og samfélaginu öllu ef við náum ekki að virkja hæfni einstaklinga óháð kyni þeirra og kynþætti, og eins og hér á landi eftir stuðningi við ólíka stjórnmálaflokka,“ segir Guðrún í grein sinni.
Í blaðinu er einnig að finna greinar eftir Gylfa Magnússon prófessor við HÍ, Katrínu Ólafsdóttur dósent við HR og fleiri.