Það er mat Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að stuðningur stjórnvalda í COVID-faraldrinum hafi ratað þangað sem hann átti að rata. „Við höfum verið með skynsamlegar aðgerðir.“ Þetta sagði hún í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði hana hvað henni fyndist um nýja spá Efnahags- og framfarastofnunar (OECD).
Kjarninn fjallaði um spána fyrr í dag en þar kemur fram að stofnunin búist við hægari efnahagsbata hér á landi heldur en Seðlabankinn spáði í síðasta hefti Peningamála. Samkvæmt samtökunum verður Ísland hægast allra þróaðra ríkja í að endurheimta fyrri efnahagsstyrk.
Þingmaðurinn sagði að auðvitað væri það ákveðið áhyggjuefni. Samkvæmt spánni myndu Bandaríkin, Írland, Japan og Noregur endurheimta sama efnahagsstyrk og fyrir faraldurinn á næstu mánuðum. Ísland næði hins vegar ekki þeim áfanga fyrr en eftir tvö ár samkvæmt OECD, þ.e. á þriðja ársfjórðungi ársins 2023.
„Í sömu skýrslu eru íslensk stjórnvöld hvött til að beina stuðningsaðgerðum sínum beint að þeim sem mest þurfa á að halda, að fara ekki í almennar aðgerðir heldur sértækar. Á sama tíma fáum við fréttir af því að allir viðskiptabankar landsins hafi hækkað vexti á húsnæðislánum í vikunni. Það hefur ekki náðst að koma böndum á verðbólguna og gengisstöðugleikinn er enn og aftur undir,“ sagði hún.
Spurði Þorgerður Katrín hvert viðhorf forsætisráðherra væri til þessarar spár OECD; hvernig hún horfði á hana, hvort hún væri sammála henni um þá mynd sem verið væri að draga fram og hvort hún ætlaði með einhverjum hætti að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið.
Vill að viðspyrnan verði hraðari en OECD spáir
Katrín svaraði og sagðist telja að stjórnvöld hefðu einmitt verið að fara úr hinum almennu aðgerðum yfir í sértækari. „Ef við skoðum ferilinn frá fyrstu aðgerðum yfir í nýjustu aðgerðir hefur æ meiri þungi færst yfir í þá áherslu að skapa störf og styðja betur við atvinnuleitendur. Það sjáum við eins og á átakinu okkar Hefjum störf, sem hefur gengið vel og fjöldi fólks er núna að fá störf sem hefur verið atvinnulaust í 12 mánuði eða lengur, sem munar auðvitað gríðarlega mikið um. Við höfum verið að hækka atvinnuleysisbætur og koma sérstaklega til móts við barnafólk.“
Allt mætti þetta kalla sértækar aðgerðir til þess að takast á við atvinnuleysið sem Katrín telur vera brýnasta úrlausnarefnið í efnahagslífi þjóðarinnar.
„Annað dæmi sem ég vil nefna í þessu, af því að þetta eru kannski hinar beinhörðu vinnumarkaðsaðgerðir, er að ég hef þá trú að þær aðgerðir sem ráðist var í til að styðja betur við fyrirtæki í þekkingargeira og nýsköpun séu þegar farnar að skila sér. Við sjáum það til að mynda á aukinni fjárfestingu, einkafjárfestingu, í nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi, sem eru mjög gleðilegar fréttir og getur orðið mjög mikilvægur þáttur í viðspyrnunni.
Það má deila um hvort aðgerðir okkar hafi verið of almennar framan af. Þær voru auðvitað háðar ýmsum takmörkunum, þannig að þegar við gerum þetta upp og skoðum stuðninginn við fyrirtækin þá sést það auðvitað að vegna ákvæða um tekjufall hefur mikill meiri hluti þeirra sem notið hafa stuðnings verið ferðaþjónustufyrirtækin, sem sannanlega hafa farið verst út úr þessari kreppu af augljósum ástæðum. Þannig að mitt mat er að stuðningurinn hafi ratað þangað sem hann átti að rata. Við höfum verið með skynsamlegar aðgerðir. Ég held hins vegar að það sem við þurfum að gera til lengri tíma og horfa á til að tryggja að þessi spá rætist ekki sé að viðspyrnan verði hraðari en þarna er spáð,“ sagði hún.
Telur viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi innviðafjárfestingar of hæga
Þorgerður Katrín steig aftur í pontu og sagði að þetta væri allt rétt – og gott og blessað. „En það er samt engu að síður þannig að OECD dregur þetta mjög skýrt fram; það er ekkert þróað ríki innan OECD sem verður jafn lengi að endurheimta fyrri efnahagsstyrk. Það er ekki stjórnarandstaðan sem segir þetta, það er OECD sem dregur þetta fram. Þrátt fyrir vel meinandi og margar ágætisaðgerðir þá er það nákvæmlega það sem við bentum á í byrjun, að þær þyrftu að vera sértækari og miða við þá hópa og þau fyrirtæki sem eiga við mestan vanda að glíma.“
Benti hún á að samdráttur væri í innviðafjárfestingum. „Einhverra hluta vegna var viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi innviðafjárfestingar mjög hæg. Þunginn og seinagangurinn var mjög mikill. Af hverju var ekki farið af stað í allar þessar framkvæmdir sem voru tilbúnar? Það er það sem er erfitt að horfa upp á,“ sagði hún og spurði ráðherrann hvernig hún sæi fyrir sér umhverfi fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þegar kæmi að gengisstöðugleikanum. „Það er stærsta hindrunin fyrir nýsköpunarfyrirtækin til að fá erlendar fjárfestingar ef við erum með þessa vonlausu krónu.“
Hefur fulla trú á Seðlabankanum
Katrín svaraði í annað sinn og benti á að fjárfesting ríkisins hefði verið að aukast jafnt og þétt. „Ég held að einnig verði að horfa til þess að eftir fyrsta áfallið héldu sveitarfélögin að sér höndum. Hins vegar virðast þau koma töluvert betur út úr þessu efnahagsáfalli en talið var fyrir fram. Þegar við skoðum tekjur þeirra og niðurstöðu í lok árs koma sveitarfélögin mun betur út úr áfallinu en þau töldu fyrir fram. Þar liggur auðvitað hluti af hinni opinberu fjárfestingu. Þar sjáum við hins vegar fjárfestingu ríkisins aukast og var kominn tími til. Það eru mjög mikilvæg fjárfestingarverkefni sem nú er verið að ráðast í sem skipta máli, ekki bara efnahagslega heldur líka samfélagslega.“
Sagðist hún hafa fulla trú á því að Seðlabankinn, sem hefði haldið mjög vel á málum í gegnum þessa kreppu, væri með mjög styrka stjórn á peningastefnunni. „Vissulega er vaxtahækkun núna, sem breytir því samt ekki að vextir eru sögulega lágir. Ég held að það skipti máli að við viðurkennum það hér að það hefur gengið gríðarlega vel að halda utan um peningastefnuna í gegnum þennan faraldur,“ sagði hún að lokum.