„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi. Það höfum við, þessi litla þjóð, sýnt oftar en einu sinni. Við þurfum að nota hana,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, um málefni Ísraels og Palestínu og viðbrögð stjórnvalda á Alþingi í dag, í umræðum um störf þingsins.
Hún sagði að ekki væri hægt að sitja aðgerðarlaus hjá. „Mannréttindabrot og brot á alþjóðasamþykktum eru ólögleg líka í þessum heimshluta og þau ber að stöðva með öllum ráðum. Líf og öryggi milljóna manna; karla, kvenna og barna veltur á því að vopnahléi verði komið á milli Ísraels og Palestínu og að friðsamleg lausn verði fundin til frambúðar.“
Ljóst væri að Ísraelar væru í mikilli yfirburðarstöðu gagnvart Palestínu. „Hamas liðar hafa myrt óbreytta borgara í Ísrael en gagnárásir Ísraelshers hafa kostað tuttugufalt fleiri lífið, þar á meðal fjölda barna. Það er reyndar ljóst að Ísrael hefur mikla yfirburðastöðu gagnvart Palestínu, bæði hvað varðar hernaðarafl og hvað varðar efnahagslega yfirburði, meðal annars í ljósi stuðnings frá erlendum ríkjum.“
Hanna Katrín sagði að hún ætlaði ekki þykjast hafa lausn á áratugalöngum deilum Ísraels og Palestínu en að hún hefði engu að síður skoðun á þeirri vegferð sem Ísraelsmenn væru á „og það hljótum við öll að hafa,“ bætti hún við.
„Níutíu og þremur milljörðum sullað á ófriðarbálið“
Meðal þess sem Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður Framsóknar, fjallaði um í sinni ræðu um störf þingsins var vopnasala Bandaríkjanna til Ísraels. Hann vitnaði í frétt Washington Post frá því í gær sem sagði frá 93 milljarða króna vopnasölu í fyrri hluta mánaðar. Hjálmar sagði að með vopnasölunni hefðu Bandaríkin sullað 93 milljörðum á ófriðarbálið.
Þá gagnrýndi Hjálmar að fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefði þrívegis beitt neitunarvaldi til að stöðva sameiginlega ályktun ráðsins, ályktun þar sem ofbeldi Ísraelsmanna er fordæmt og hvatt er til vopnahlés.
Að hans mati þyrfti að bregðast við strax. „Sama hversu smá við erum, við verðum að bregðast við og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Þessar deilur snúast ekki bara um Ísrael og Palestínu. Vísum gagnrýninni þangað sem hún á heima.“