„Við Vinstri-græn höfum sýnt það að við hefjum verkefnin og ljúkum þeim, erum með skýr markmið og erum til í að taka slaginn. Verkin sýna merkin. Og við viljum halda áfram að vinna í þágu fólksins í landinu.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, á rafrænum landsfundi flokksins sem haldinn er í dag.
Í ávarpi sínu fór hún yfir stefnuáherslur flokksins og hverju þau hefðu áorkað í ríkisstjórnarsamstarfinu. „Við eigum samfélag þar sem við erum fær um að mæta hvert öðru af virðingu og ræða okkur niður að niðurstöðu.“
Katrín sagði að það hefði aldrei verið mikilvægara að standa vörð um það samfélag. „Við sjáum hætturnar víða um heim þar sem samfélög brotna upp vegna skautunar í stjórnmálaumræðunni. Ísland má ekki og á ekki að verða þannig. Við tökum glöð að okkur það hlutverk að leiða saman ólík öfl að bestu niðurstöðu. Ekki eingöngu vegna þess að það er rétt að gera það – heldur vegna þess að við veljum samtalið fram yfir bergmálshellinn.“
Þá kom fram í máli hennar að Ísland væri land tækifæranna. „En það er ekki sjálfgefið að við öll fáum notið þeirra. Þess vegna er það okkar hlutverk að skapa samfélag þar sem öllum býðst að nýta þessi tækifæri.
Næsta ríkisstjórn snýst um þetta; jöfn tækifæri og jöfn réttindi allra. Næsta ríkisstjórn snýst um að bæta lífskjör á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi. Við munum öll sjá hversu miklu innviðauppbygging undanfarinna ára mun skila landinu fram á við. Næsta ríkisstjórn snýst um að snúa vörn í sókn í baráttunni gegn loftslagsvánni. Næsta ríkisstjórn snýst líka um að stíga stór skref í að auka verðmætasköpun í öllum greinum með aukinni áherslu á þekkingargeirann og skapandi greinar.“
Að lokum sagði Katrín að þessa ríkisstjórn væru þau tilbúin að leiða og „tryggja að sú bjarta framtíðarsýn sem við stöndum fyrir verði leiðandi við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabilið og þannig tryggja áfram velsæld og framfarir fyrir Ísland – fyrir okkur öll“.