Félagsfundur Reykjavíkurráðs Viðreisnar ákvað í gærkvöldi að prófkjör yrði haldið til að velja á lista Viðreisnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem ákveðið er að listar Viðreisnar skuli ráðast með prófkjöri en ekki uppstillingu, sem hefur verið meginregla Viðreisnar til þessa.
Ekki er búið að ákveða hvenær prófkjör flokksins á að fara fram, en samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu þarf að auglýsa það með að minnsta kosti 30 daga fyrirvara. Framboð þurfa að berast að minnsta kosti 15 dögum fyrir prófkjör.
Allir félagsmenn í Viðreisn sem skráðir hafa verið í flokkinn í að minnsta kosti þrjá daga og búsettir eru í Reykjavík geta tekið þátt í prófkjörinu. Að því loknu mun uppstillingarnefnd ganga frá tillögum sínum um framboðslista í samræmi við niðurstöður prófkjörsins, en þó skal tryggja jöfn kynjahlutföll með fléttulista, þannig að einstaklingar af sama kyni verði ekki í samliggjandi sætum.
Um 2.700 manns voru skráð í Viðreisn á landsvísu skömmu fyrir alþingiskosningarnar síðasta haust, samkvæmt svari flokksins til Kjarnans. Í svarinu var sérstaklega tekið fram að flokkurinn hefði aldrei nokkru sinni haldið prófkjör, sem venjulega laða nýja félaga inn á flokksskránna.
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar ritaði í áramótagrein sinni í Kjarnann að hann teldi prófkjör bestu leiðina til þess að velja fólk til forystu innan stjórnmálaflokka, þó vissulega væri það „meingallað fyrirkomulag“.
Baráttan um borgina í startholunum
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí og flokkarnir sem ætla sér að bjóða fram í höfuðborginni eru sumir byrjaðir að láta glitta í hvernig þeir ætli að haga prófkjörsbaráttunni – og sums staðar er hún raunar þegar farin af stað með tilkynningum um framboð.
Rétt eins og Viðreisn verður Samfylkingin með prófkjör, sem reyndar er kallað flokksval á þeim bænum. Það fer fram dagana 12.-13. febrúar og verður opið félögum í Samfylkingunni og skráðum stuðningsmönnum flokksins í Reykjavík.
Hjá Sjálfstæðisflokknum er þess enn beðið að endanleg ákvörðun verði tekin um að halda annað hvort leiðtogaprófkjör eins og árið 2018 eða opið prófkjör þar sem almennir flokksfélagar fái að hafa sitt að segja um annað og meira en einungis það hver leiðir listann. Sú ákvörðun er í höndum fulltrúaráðs flokksins.
Píratar ætla sér að halda prófkjör í febrúar og ætla má að Vinstri græn geri það einnig. Framsóknarflokkurinn, sem ekki á fulltrúa í borgarstjórn í dag, ætlar sér hins vegar að stilla upp lista.
Lítið hefur heyrst úr ranni annarra flokka sem eiga fulltrúa í borgarstjórn, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.
Oddvitar og einu borgarfulltrúar þessara þriggja flokka lýstu því þó allar yfir í samtali við Vísi í gær að þær hefðu hug á að sækjast á ný eftir sæti á framboðslistum flokkanna.