Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að það hvarfli hvorki að sér né öðrum sem starfa fyrir flokkinn að það gerist nokkurn tímann að Viðreisn gangi til liðs við einhvern annan stjórnmálaflokk. „Ekki á minni vakt,“ skrifar Þorgerður Katrín í aðsendri grein á Vísi í dag.
Þar ræðir hún svör sín við spurningu Páls Magnússonar, fráfarandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins og þáttastjórnanda á Hringbraut, sem Kjarninn sagði frá í gær. Páll spurði Þorgerði í þætti sínum, sem birtist á miðvikudagskvöld, hvort hún teldi líklegt að Viðreisn myndi einhvern tímann sameinast Sjálfstæðisflokknum.
„Mér hefur greinilega fundist spurningin sérkennileg, það sérkennileg að ég taldi hana lúta að samstarfi á milli flokkanna. Og svaraði þar um að málefni okkar um Evrópusamvinnu, gengisstöðugleika, öflugt heilbrigðiskerfi og kerfisbreytingar í sjávarútvegi væru á oddinum og það væri það sem gilti. En ég myndi auðvitað aldrei útiloka neitt, þó mér þætti ansi langt í land hjá Sjálfstæðisflokknum að gangast undir þessi prinsipp okkar. Ef horft er á þáttinn er augljóst að málefnaágreiningur okkar er djúpur. En úr þessu voru samt sem áður spunnar fréttir um að ég útilokaði ekki samruna við Sjálfstæðisflokkinn. Fyrirsjáanlegt? Já. Ekki síst rétt fyrir kosningar,“ skrifar Þorgerður Katrín í grein sinni í dag.
Hún segir að nærtækara hefði verið fyrir þáttarstjórnandann Pál að spyrja Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokks, sem var einnig gestur þáttarins, að því hvort hann hygðist sameinast Miðflokknum. Eða Vinstri grænum, eins og Sigmar Guðmundsson frambjóðandi Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi sagði reyndar í gær að væri nær lagi en að Viðreisn sameinaðist Sjálfstæðisflokki.
„Þar liggur hið sameiginlega íhaldsmengi,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Formaðurinn segir að það virðist vera „uppáhalds samkvæmisleikur margra að skilgreina Viðreisn“ sem ýmist „litla Sjálfstæðisflokkinn eða litlu Samfylkinguna.“
„En Viðreisn er bara Viðreisn. Punktur.“
Um 30 prósent kjósenda Viðreisnar árið 2016 komu frá Sjálfstæðisflokki
Í grein sinni á Vísi vísar Þorgerður Katrín til orða Ólafs Þ. Harðarssonar, prófessors í stjórnmálafræði, sem gerði það að umtalsefni á Facebook í gær, í hóp sem heitir Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar, að það væri „mikil einföldun“ að tala um að Viðreisn væri klofningsflokkur úr Sjálfstæðisflokki.
„Þegar Viðreisn bauð fyrst fram 2016 komu rúm 30% kjósenda flokksins frá Sjálfstæðisflokki en tæp 30% frá Samfylkingu - og afgangurinn frá öðrum flokkum (auk nýrra kjósenda). Íslenska kosningarannsóknin sýnir að bæði 2016 og 2017 töldu íslenskir kjósendur að Viðreisn væri mun nær miðjunni en Sjálfstæðisflokkurinn á hægri-vinstri kvarða. Til samanburðar má nefna að Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar 1987 var réttnefndur klofningsflokkur úr Sjálfstæðisflokki. Þá komu um 70% kjósenda Borgaraflokks frá Sjálfstæðisflokki. Kjósendur settu Borgaraflokk líka miklu nær Sjálfstæðisflokki á hægri-vinstri kvarða 1987 en þeir setja Viðreisn nú,“ skrifaði Ólafur, sem fór einnig yfir að viðhorf kjósenda Viðreisnar væru líka mjög frábrugðin viðhorfum kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
„Viðreisnarkjósendur voru miklu meiri opingáttarmenn í alþjóðamálum en kjósendur Sjálfstæðisflokks. Þeir voru miklu síður hlynntir lítt heftum markaði en kjósendur Sjálfstæðisflokks. Ágreiningur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar er ekki bara um Evrópusambandið,“ skrifaði Ólafur.