Fjöldi viðskiptavina vefsíðunnar Ashley Madison, sem sérhæfði sig í að aðstoða fólk við að halda framhjá maka sínum, hefur orðið fyrir fjárkúgunartilburðum í kjölfar þess að síðan var hökkuð með þeim afleiðingum að persónuupplýsingum þúsunda notenda lak á vefinn. Þeir sem stunda fjárkúgunina hafa sent tölvupósta á fólk sem hafði skráð sig á síðuna og sagt þeim af þeir borgi ekki ekki ákveðna fjárhæð, í rafmyntinni Bitcoin, þá muni þeir deila þeim upplýsingum sem um það er að finna á netinu með þeirra nánustu. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Þar er greint frá því að Toshiro Nishimura, greinandi hjá Cloudmark, hafi kannað þá Bitcoin-reikninga sem Ashley Madison-notendurnir voru að leggja inn á og komist að þeirri niðurstöðu að á bakvið þá væru óprúttnir fjárkúgarar. Hann fylgdi alls eftir 67 færslum sem gáfu til kynna að notendur Ashley Madison hafi greint alls um 6.400 dali, um 830 þúsund krónur, til fjárkúgara.
Þegar lögreglan í Toronto hélt blaðamannafund vegna Ashley Madison-lekans og rannsóknar hennar vegna hans í ágúst þá birti hún m.a. dæmi um fjárkúgunartölvupóst sem einum notanda hafði borist. Hann má sjá hér að neðan.
Icehot1 kveikti í Ashley Madison-umræðunni á Íslandi
Gagnalekinn af Ashley Madison-síðunni hefur verið mikið í umræðunni á Íslandi undanfarna daga eftir að greint var frá því að gamalt netfang Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra væri á meðal þeirra netfanga sem þar væri að finna. Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna, gerði þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í vikunni og Bjarni deildi innleggi Þóru á aðdáendasíðu sinni í kjölfarið.
Þóra Margrét sagði að þeim hjónum hafi borist margar ábendingar um að nú sé talsvert rætt manna í milli að gamalt netfang Bjarna tengist gögnunum. Netfangið sem um ræðir er bjarniben@n1.is.
Þóra sagði að þau hjónin hafi heyrt um þennan „umdeilda vef í erlendum fréttum fyrir um 7 árum (2008). Í framhaldi af því skoðuðum við vefinn fyrir forvitnissakir, en til þess þurfti að fylla út þar til gert form, skrá netfang, erlent póstnúmer og fleira sem við gerðum í algjörum hálfkæringi og af léttúð,“ skrifaði Þóra.
Hún segir þau hjónin aldrei síðan hafa farið inn á vefinn og ekki hafi verið greitt fyrir skráningu eða aðgang að honum. „Þessi heimsókn hefur ekki leitt til samskipta við nokkurn mann, hvað þá trúnaðarbrots af neinum toga. Ekki er allt sem sýnist á netinu,“ skrifaði hún.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni All about Ashley, þar sem hægt er að fletta upp notendum síðunnar, kemur fram að notendanafn Bjarna hafi verið IceHot1. Heimilisfangið sem skráð var var í Bradenton í Flórída í Bandaríkjunum, þar sem faðir Bjarna á hús.