Heildaratvinnuþátttaka er nú á svipuðum stað og hún var við lok síðustu efnahagsuppsveiflu árið 2019. Hins vegar hefur staða ungs fólks og innflytjenda á vinnumarkaði versnað, á meðan atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist. Þetta kemur fram í vinnumarkaðstölum Hagstofu og tölum frá Vinnumálastofnun.
Meiri áhrif á konur, innflytjendur og unga
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hefur heimsfaraldurinn haft ójöfn áhrif á mismunandi þjóðfélagshópa á vinnumarkaði. Þannig fækkaði starfandi innflytjendum um 18 prósent frá árinu 2019 þegar verst lét, á meðan störfum innfæddra fækkaði ekki um meira en sex prósent á sama tíma.
Svipuð áhrif mátti gæta á milli kynja og aldurshópa. Í faraldrinum fækkaði störfum kvenna en störfum karla, auk þess sem fólk undir 25 ára aldri var mun líklegra til að hætta í vinnunni sinni eða vera sagt upp heldur en aðrir aldurshópar.
Á síðasta ári tók störfum yngsta aldurshópsins svo aftur að fjölga, en með því jókst hlutfall þeirra sem voru starfandi úr 61 prósenti og 67 prósentum. Þetta er þó mun lægra hlutfall en árið 2019, þegar rúmlega 70 prósent fólks á aldrinum 16-25 ára var starfandi.
Staða innflytjenda á vinnumarkaði batnaði einnig töluvert í fyrra eftir því sem efnahagsleg áhrif faraldursins minnkuðu, en starfandi innflytjendur í desember voru orðnir jafnmargir og þeir voru á milli áranna 2019 og 2020. Hins vegar hefur atvinnulausum innflytjendum ekki fækkað, en samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun eru rúmlega fjórir af hverjum tíu á atvinnuleysisskrá innflytjendur og hefur það hlutfall aldrei verið jafnhátt.
Aðra sögu er hins vegar að segja um konur á vinnumarkaði, en staða þeirra gjörbreyttist á síðasta ári. Líkt og sést á mynd hér að ofan nær helmingaðist atvinnuleysi kvenna í fyrra, þar sem það fór úr tæpum átta prósentum niður í 4,5 prósent. Á síðari hluta ársins hefur atvinnuleysi kvenna svo verið minna en atvinnuleysi karla, sem hefur verið tiltölulega óbreytt í rúmum fimm prósentum.
Sömuleiðis hefur starfandi konum fjölgað töluvert hraðar en starfandi körlum. Samhliða því hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist, en hún mælist nú í tæpum 76 prósentum, sem er meira en hún var árið 2019.