Nokkur titringur er hjá norskum stjórnvöldum vegna lækkandi olíuverðs síðustu vikna. Mikill uppgangur hefur einkennt atvinnugreinar sem tengjast olíuiðnaðinum í Noregi. Sérstaklega hefur verið mikið að gerast í Stavanger og nágrenni, í Rogalandi. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Olíuverð hefur fallið hratt alla þessa viku og er nú komið í 92 USD/fatið úr rúmum 100 USD/farið fyrir bara rúmlega mánuði síðan.
Hlutabréf lækka í Noregi
Vegna þess hve mörg fyrirtæki í Norsku Kauphöllinni (OSE) eru háð olíuverði hefur úrvalsvísitalan í OSE lækkað um 3% síðustu daga og um tæp 8% frá því í sumar. Þetta hefur valdið Haraldi V Noregskonungi áhyggjum og varaði hann samlanda sína í ræðu við setningu Norska Stórþingsins í vikunni um að Norðmenn gætu ekki vænst þess að olíuiðnaðurinn yrði jafn sterkur mótor í efnahagslífinu og raunin hefur verið síðustu ár. Öystein Olsen seðlabankastjóri Noregs tók í sama streng í nýlegri ræðu og sagði að ef olíuverð héldi áfram að falla myndi það þýða að fjárfestingar við ný olíuleitarsvæði myndu dragast saman og umsvif í olíutengdum greinum því minnka, að því er fram kom í Aftenposten. Raunar spáir Östein því að fjárfestingar við olíuleit í norskri lögsögu muni dragast saman um 10% á árinu 2015 en gætu aukist aftur árið 2017.
Minnkandi eftirspurn frá Asíu og Evrópu
Samkvæmt greinendum í Noregi eru helstu ástæður þess að olíuverð hefur gefið eftir minni spurn eftir olíu frá Asíu og hægagangur í stóru hagkerfunum í Evrópu. Auk þess hefur framleiðsla í mörgum af helstu olíulöndunum aukist að undanförnu. Hagvöxtur í Evrópu er enn mjög lítill og lækkaði Mario Draghi Seðlabankastjóri evrópska seðlabankans stýrivexti í 0,05% nýlega til þess að blása lífi í efnahag landanna. Nokkur óvissa er um þróun olíuverðs á næstu mánuðum. Árstíðarbundin sveifla vegna vetrarkulda í Evrópu og Bandaríkjunum getur haft áhrif til hækkunar og auk þess er óvissa um hvernig ráðamenn í Sádí-Arabíu muni bregðast við lækkandi olíuverði.