Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokkins og formaður fjárlaganefndar, segir Svandísi Svavarsdóttir, þingmann Vinstri grænna, vera leiðtoga hulduhers sem stundi skipulagðar árásir á Framsóknarflokkinn. Um sé að ræða pólitísk öfl sem hafi það á stefnuskrá sinni að ryðja Framsóknarflokknum úr vegi, meðal annars með árásum á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formann flokksins. Þetta kemur fram í föstudagsviðtali við Vigdísi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Grímulausar árásir á Framsóknarflokkinn
Þar er Vigdís einnig spurð um viðmót Framsóknarflokksins gagnvart útlendingum, meðal annars flóttamönnum. Hún hafnar því að Framsóknarmenn séu hálfgerðir einangrunarsinnar sem vilji ekki útlendinga inn í landið. Hún segir það andstæðinga flokksins sem geri hann tortryggilegan í þessum málaflokki. Það sé „að sjálfsögðu ekki“ neinn rasismi í Framsóknarflokknum. „Ef þið mynduð fara yfir öll þau mannréttindi sem Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir í gegnum tíðina þá kæmi það ykkur mjög á óvart. Við höfum verið í fararbroddi með ályktanir á okkar flokksþingum sem snúa að mannúðarmálum og réttindabaráttu allri í víðtækum skilningi. Þetta er eitthvað sem andstæðingum okkar hentar að halda á lofti og ég blæs á þessi rök og það er gott að geta svarað fyrir þetta í eitt skipti fyrir öll.“
Vigdís segir að Framsóknarflokkurinn hafi orðið óþægilega stór eftir síðustu kosningar fyrir ákveðna andstæðinga sína. Gagnrýni á flokkinn sé oft þannig að reynt sé að gera eitthvað úr flokknum sem hann sé ekki. „Þá er öllum brögðum beitt. Auðvitað hafa þessar árásir ekkert farið fram hjá mér. Og þá spyr ég, hvað gengur þessi fólki til að haga sér með þessum hætti? Sem hafa gengið svona hart fram? Þegar stefna flokksins míns er skoðuð þá er hún mjög líberal. Þannig að þetta eru fyrst og fremst pólitísk öfl sem hafa það á stefnuskrá sinni að ryðja Framsóknarflokknum úr vegi. Þar á meðal eru árásir á forsætisráðherra og formann flokksins. Ég get alveg sagt ykkur það að þessar grímulausu árásir þingmanna stjórnarandstöðunnar á forsætisráðherra í þinginu, mér blöskrar það alveg. Og þetta er alveg grímulaust – það fer ekkert á milli mála hver það er sem stendur fyrir þessu. Það er einn leiðtogi sem tekur alla hina með sér.“
Að mati Vigdísar er Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sá leiðtogi. „Svandís Svavarsdóttir er mjög aggressív í þessa veru, svo fylgja hinir á eftir. Svo er þetta treinað upp á bloggsíðum og í kommentakerfum. Þetta er svona hulduher, skulum við segja[...]Þetta er byggt fyrst og fremst á kosningatapi og þeir – Samfylking og Vinstri grænir – sættu sig aldrei við kosningatapið á sínum tíma. Framsóknarflokkurinn uppskar ríkulega meðal annars vegna Icesave-málsins, en þar erum við líka komin inn á fjölskyldutengsl því við vitum hver var í samninganefnd Icesave. Kannski eru einhverjar óuppgerðar sakir þar“. Þegar Vigdís er spurð um hverja hún sé að tala svarar hún því til að þeir heiti „Svavar Gestsson og Indriði Þorláksson. Ég vil ekkert segja meira“. Svavar Gestsson er faðir Svandísar Svavarsdóttur.
Vígdís segist þó ekki verða sár vegna umræðunnar heldur þykkni frekar í henni. „Ég hugsa að þetta sé rosalega ósanngjarnt og óréttlátt miðað við árangur kjörtímabilsins. Að þessi neikvæðni og bölmóður sé á borðum landsmanna í stað þess að líta á stöðuna eins og hún er. Stórkostlegar framfarir fyrir land og þjóð en það er sífellt verið að finna hið neikvæða og þetta litla sem miður hefur farið. Ég er stundum rosalega hissa“.
Meirihluti ellilífeyrisþegar hefur það gott
Aðspurð hvort óánægjuraddirnar stafi ekki af því að á Íslandi sé margt að segir Vigdís að ríkisstjórnin sé að fara í öll þau mál. Ellilífeyrir hefur hækkað um 9,4 prósent. Ég tel til dæmis að meirihluti ellilífeyrisþega hafi það býsna gott en auðvitað þarf að greina þá sem eru kannski á leigumarkaði og hafa strípaðar bætur. Það þarf að finna út hvað þessi hópur er stór. Leiguvandi er ekkert nýr af nálinni en það verður að gefa okkur svigrúm til þess að vinna að þessum málum því þetta gerist ekki á einni nóttu. Við erum búin að fara í gegnum skuldaniðurfellinguna og öll þessi góðu mál og þá er bara næsta verkefni á dagskrá[...]Neikvæðu raddirnar eru alltaf háværari og það er haldið fram hálfsannleik. Það eru öfl í þessu samfélagi sem eru alltaf að reyna að koma inn neikvæðum straumum. Ég held bara að þetta sé svo óhollt fyrir okkur sem þjóð.“
Í viðtalinur ræðir Vigdís einnig um eftirlitshlutverk sitt sem formanns fjárlaganefndar, og þær stofnanir sem henni hugnast að sameina til að ná fram hagræðingu í kerfinu. Þar nefnir hún stofnanir sem henni finnst það sambærilegar að það steiniliggi að sameina þær. „Það er Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá jafnvel og Ríkisskattstjóri þar sem er verið að vinna með útgreiðslur og bætur til einstaklinga. Það er fullkomið hagræði að renna saman Vinnumálastofnun og Tryggingamálastofnun því þetta eru útgreiðslustofnanir auk þess að vera að koma fólki í vinnu. Það eru líka uppi áform um það að koma fólki í vinnu sem er búið að vera lengi atvinnulaust og jafnvel komið á bætur. Þetta er danskt módel. Þjóðskrá heldur utan um lögheimili og kennitölur, Vinnumálastofnun er með þá sem eru á atvinnuleysisskrá, Tryggingastofnun með þá sem eru á bótum, Ríkisskattstjóri með endurgreiðslu skatta.“