Félagsfundur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík ákvað með kosningu á félagsfundi í gær að halda forval um þrjú efstu sæti á lista hreyfingarinnar til framboðs í borgarstjórnarkosningum í vor.
Samkvæmt tilkynningu frá VG voru tvær tillögur lagðar fram fyrir fundinn, önnur um uppstillingu en hin um forval í þrjú efstu sætin. Tillagan um forval var samþykkt með miklum meirihluta, eða 93 prósentum atkvæða.
Líf Magneudóttir er eini borgarfulltrúi Vinstri grænna, en flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 og tapaði hátt í fjórum prósentustigum frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 og hélt óbreyttum fjölda borgarfulltrúa þrátt fyrir að verið væri að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23.
Vonast til þess að VG eignist fleiri fulltrúa
Líf hefur boðað að hún ætli sér að fara fram að nýju, ef hún njóti stuðnings félaga sinna til þess. Hún segir í samtali við Kjarnann í dag að hún hafi vonir um að leiða Vinstri græn til betri niðurstöðu í kosningunum í vor – og að flokkurinn vilji fá fleiri fulltrúa kjörna í höfuðborginni.
„Ég er alltaf vígreif og alltaf baráttuglöð og alltaf stolt af verkum okkar og því sem við stöndum fyrir og ég vona að borgarbúar gefi okkur tækifæri,“ segir Líf, en hún játar því að úrslit síðustu borgarstjórnarkosninga hafi verið skellur fyrir Vinstri græn, þrátt fyrir að hún sé lítið fyrir það að dvelja í fortíðinni.
„Að sjálfsögðu viljum við fá fleiri borgarfulltrúa sem tala fyrir okkar málefnum,“ segir Líf og bætir því við að hún telji að það hafi ef til vill aldrei verið mikilvægara en nú að borgarbúar veiti Vinstri grænum stuðning sinn, séu þeir ánægðir með með stóru línurnar í stefnu núverandi meirihluta í Reykjavík, í samgöngu- og skipulagsmálum, loftslagsmálum, skólamálum og fleiri málaflokkum.
Vinstri græn hafi nefnilega náð mörgum málum inn í meirihlutasáttmálann og séu „burðarás“ í núverandi meirihlutasamstarfi, þó að Líf segist ekki binda sig við að halda því áfram í sömu mynd eftir kosningar.
Allir meirihlutaflokkarnir með prófkjör um efstu sæti
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí og hafa fimm af átta flokkum sem nú eiga fulltrúa í borginni boðað að til standi að láta val á forystufólki í borginni í hendur flokksmanna, með einhverjum hætti.
Það ætla allir flokkarnir í meirihlutanum allavega að gera. Rétt eins og Vinstri græn verður Samfylkingin með flokksval, Píratar verða með prófkjör og Viðreisn einnig, í fyrsta sinn í sögu flokksins.
Hjá Sjálfstæðisflokknum er þess enn beðið að endanleg ákvörðun verði tekin um að halda annað hvort leiðtogaprófkjör eins og árið 2018 eða opið prófkjör þar sem almennir flokksfélagar fái að hafa sitt að segja um annað og meira en einungis það hver leiðir listann, en raunar er Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sú eina sem er í framboði sem stendur. Sú ákvörðun er í höndum fulltrúaráðs flokksins sem á enn eftir að koma saman og ákveða fyrirkomulagið.
Framsóknarflokkurinn, sem ekki á fulltrúa í borgarstjórn í dag, ætlar sér hins vegar að stilla upp lista í borginni. Lítið hefur heyrst úr ranni annarra flokka sem eiga fulltrúa í borgarstjórn, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.
Oddvitar og einu borgarfulltrúar þessara þriggja flokka hafa þó allar lýst því yfir nýlega að þær hafi hug á að sækjast á ný eftir sæti á framboðslistum flokkanna.