Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir lögfræðingur og sáttamiðlari leiðir lista Miðflokksins í Reykjavík norður til komandi alþingiskosninga, en félagsfundur flokksins í kjördæminu samþykkti í kvöld lista uppstillingarnefndar með 77 prósentum greiddra atkvæða. Athygli vekur að eini núverandi þingmaður flokksins í kjördæminu, Ólafur Ísleifsson, er ekki á listanum.
Tilkynningu Miðflokksins um niðurstöðu félagsfundarins fylgir yfirlýsing frá Ólafi, þar sem segir að hann hafi tekið ákvörðun um að sækjast ekki eftir sæti á framboðslista flokksins í kjördæminu til að „leysa þá pattstöðu“ sem upp hafi verið komin við uppstillingu á lista flokksins í kjördæminu.
Útilokar ekki að blanda sér í slaginn í Reykjavík suður
Þingmaðurinn, sem kjörinn var á þing fyrir Flokk fólksins árið 2017 en síðar rekinn úr þingflokknum, segir við RÚV í kvöld að hann útiloki ekki að sækjast eftir oddvitasæti í Reykjavík suður, en þar er einnig pattstaða uppi.
Félagsfundur felldi tillögu uppstillingarnefndar flokksins á fimmtudag í síðustu viku, en þar hafði verið gerð tillaga um að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, leiddi lista flokksins til komandi kosninga. Núverandi þingmaður í því kjördæmi, Þorsteinn Sæmundsson, var ekki á lista uppstillingarnefndarinnar.
Til stendur að halda oddvitaprófkjör þeirra á milli fyrst listi uppstillingarnefndarinnar var felldur og nú opnar Ólafur á að blanda sér í þá baráttu.
Einnig hefur komið fram að styr standi um uppstillingu lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi, en um helgina sagði mbl.is frá því að Karl Gauti Hjaltason þingmaður, sem kom rétt eins og Ólafur yfir til Miðflokksins frá Flokki fólksins í kjölfar Klausturmálsins, yrði ekki á lista uppstillingarnefndar á Suðurlandi. Þar verður tillaga uppstillingarnefndar borin fyrir félaga á miðvikudag.
Efstu sæti lista Miðflokksins í Reykjavík norður
- Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir, lögfræðingur og sáttamiðlari
- Tómas Ellert Tómasson, verkfræðingur
- Erna Valsdóttir, fasteignasali
- Þórarinn Jóhann Kristjánsson, tölvunarfræðingur og kennari
- Ásta Karen Ágústsdóttir, laganemi og dómritari
- Sólveig Bjarney Daníelsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri
Uppfært: Í tilkynningu Miðflokksins sagði að oddvitinn Vilborg Þóranna væri sáttasemjari og var þess getið í upphaflegri útgáfu fréttarinnar, en í leiðréttingu frá flokknum sagði að hún væri sáttamiðlari.