Vilhjálmur Bretaprins er harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla er Tusk-verðlaunin, sem veitt eru fólki sem berst fyrir náttúruvernd, voru afhent í gærkvöldi. Í ræðu sinni á hátíðinni sagði hann fólksfjölgun stefna náttúru Afríku í hættu.
„Líttu í eigin barm,“ er meðal þess sem gagnrýnendur hans benda honum á að gera.
Vilhjálmur sagði að fólksfjölgun væri að setja aukinn þrýsting á víðerni og búsvæði villtra dýra í Afríku. Sagði hann þetta skapa „miklar áskoranir“ fyrir náttúruverndarsinna“ en sagði vandann þó ekki bundinn við Afríku.
„En það er bráðnauðsynlegt að náttúran sé vernduð ekki aðeins vegna þess sem hún gefur hagkerfum okkar, atvinnu og til lífsviðurværis heldur fyrir framtíðar heilsu og velferð mannkyns,“ sagði prinsinn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Vilhjálmur lætur ummæli í þessa veru falla. Árið 2017 sagði hann einnig að hröð fólksfjölgun í Afríku væri að auka þrýsting á villt dýralíf „gríðarlega“. Þegar Vilhjálmur sagði þetta átti hann von á sínu þriðja barni og var ítrekað bent á þá staðreynd í kjölfarið.
Fólksfjölgun er hröð í Afríku og er því spáð að mannfjöldinn í álfunni tvöfaldist á næstu þrjátíu árum og verði orðinn 2,5 milljarðar árið 2050.
Asia population density: 100 per square kilometre
— Nadine Batchelor-Hunt (@nadinebh_) November 24, 2021
Europe population density: 72.9 per square kilometre
Africa population density: 36.4 per square kilometre
Prince William, with two kids and another on the way: it is clear Africa are having too many children here https://t.co/zuaNq8zGFe
Vilhjálmur fékk ekki aðeins neikvæðar athugasemdir um nýjustu ummæli sín um fólksfjölgunina í álfunni því einhverjir horfðu fram hjá því og þökkuðu honum fyrir að standa með náttúrunni á tímum fólksfjölgunar á heimsvísu.
Aðrir bentu á að þótt fólksfjölgunin í álfunni væri vissulega mikil væru færri manneskjur á hvern ferkílómetra heldur en í bæði Asíu og Evrópu. Þá var það einnig rifjað upp fyrir breska prinsinum að evrópskir veiðimenn í upphafi tuttugustu aldar hafi valdið langmestum skaða á dýralífi Afríku. Að kenna Afríkubúum um hnignun náttúrunnar væri stórkostlegur misskilningur á mannkynssögunni. „Hann ætti að eyða tíma sínum í að lesa góðar sögubækur,“ benti einn Twitter-notandi á og sagði prinsinum að hugsa um sína eigin stóru fjölskyldu sem hefði dreift sér um allan heim.
Mr. William has no moral authority to say anything about Africa or about Africans and their lives. He should spend his time reading good history books and raising his many children and spending time with his very huge family spread out across the world. His opinion is sewage🚮.
— Dr. John Njenga Karugia PhD. (@johnnjenga) November 24, 2021
. https://t.co/ZdxVXMz5BD
Bresku góðgerðarsamtökin Population Matters (Fólksfjöldi skiptir máli) fögnuðu því hins vegar að Vilhjálmur beindi sjónum fólks að fólksfjölgun og hnignun vistkerfa. Þau hvöttu samtímis Breta til að eignast færri börn. „Prinsinn dregur réttilega athygli að fjölgun mannkyns sem lykilþáttar í tapi á villtri náttúru á heimsvísu en þetta er stærra samhengi,“ sagði Robin Maynard, formaður samtakanna, við breska blaðið The Times. „Mikil neysla í efnamiklum og þróuðum ríkjum á borð við Bretland er einnig að valda eyðingu vistkerfa. Skógar eru ruddir til ræktunar fyrir breskan og evrópskan búfénað.“
Hann bendir enn fremur á að nær hvergi í heiminum sé minna eftir af villtri náttúru en einmitt í Bretlandi. „Það áhrifamesta sem við getum gert er að draga úr neyslu okkar og velja að eignast minni fjölskyldu – val sem hundruð milljónir kvenna í heiminum hafa ekki.“