Bankasýsla ríkisins lagði fram í gær fram tillögu til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að stofnunin fái heimild til að selja eftirstandandi 65 prósent hlut íslenskra ríkisins í Íslandsbanka. Stefnt er að því að salan fari fram í nokkrum áföngum en heimildin á að gilda í tvö ár, eða út árið 2023.
Tillagan er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og fyrirætlanir sem kynntar voru við gerð fjárlaga fyrir árið 2022.
Ríkið seldi 35 prósent hlut sinn í Íslandsbanka í júní í fyrra og hlutabréf í bankanum voru í kjölfarið skráð á markað. Hver hlutur var seldur á 79 krónur og söluandvirðið var 55,3 milljarðar króna. Markaðsvirði bankans hefur síðan hækkað um 65 prósent og markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Íslandsbanka því 162 milljarðar króna í dag.
Í minnisblaði sem birt hefur verið á vef Bankasýslu ríkisins segir að þar sem hlutir í bankanum séu skráðir á skipulegum markaði telji Bankasýsla ríkisins einsýnt að sala á frekari hlutum fari einnig fram með almennu útboði. „Aftur á móti er ljóst vegna umfangs áætlaðrar sölu og stærðar útboða á hlutabréfamörkuðum að framkvæma þurfi sölu á svo stórum eignarhlut í mörgum skrefum. Þar sem markaðsaðstæður, sem geta breyst með skömmum fyrirvara, ráða því að mestu leyti hvenær tímasetning hverrar sölu er ákveðin og sala með almennu útboði tekur afar skamman tíma, telur Bankasýsla ríkisins rétt að ráðherra afli víðtækra heimilda til sölu.“
Mismunandi aðferðir við sölu
Bankasýslan vill líta til fjögurra söluaðferða á eftirstandandi eignarhlut í Íslandsbanka. Í fyrsta lagi sölu með tilboðsfyrirkomulagi. Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram á einum til tveimur dögum. Í minnisblaðinu segir að til að tryggja að útboðinu ljúki á farsælan hátt sé ákveðnum fjölda fagfjárfesta boðið að undirrita trúnaðaryfirlýsingar við upphaf hverrar sölu og búa þeir þar af leiðandi tímabundið yfir innherjaupplýsingum. „Er þá oftast um að ræða fjárfesta, sem annað hvort eru þegar eigendur í undirliggjandi félagi eða hafa gefið til kynna áhuga á að taka þátt í frekari sölu hluta af hálfu ráðandi eiganda. Þegar áhugi þeirra liggur fyrir um verð og magn er svo tekin ákvörðun af hálfu seljanda og ráðgjafa hans að tilkynna um almennt útboð á hlutum eftir lokun markaða til hæfra fjárfesta. Eftir það gefst þessum fjárfestum svo tími það sem eftir lifir dags til að skila inn áskriftum, en niðurstöður úthlutunar þurfa þó að liggja fyrir áður en markaðir með hlutina opna daginn eftir.“
Í öðru lagi sölu með full markaðssettu útboði, en það er opin útboð til almennra fjárfesta og hæfra fjárfesta, sem tekur nokkra daga. „Bankasýsla ríkisins telur að sala með tilboðsfyrirkomulagi sé einnig í fullu samræmi við meginreglur sölumeðferðar og markmið stofnunarinnar. Aftur á móti eru mun færri dæmi um slíkar sölur á evrópskum hlutabréfamörkuðum undanfarin ár, en aðferðin er vinsælli í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum. Má segja að sala með full markaðssettu útboði falli á milli sölu með frumútboði og sölu með tilboðsfyrirkomulagi.“
Í þriðja lagi miðlunaráætlun, en sala samkvæmt henni fer yfirleitt fram á síðari stigum sölu, t.d. þegar eignarhlutur ráðandi hluthafa liggur á nær þriðjungi af útistandandi hlutabréfum. „Fer hún þannig fram að Bankasýsla ríkisins myndi gefa verðbréfafyrirtæki fyrirmæli um að selja ákveðinn fjölda hluta, sem t.d. miðast við að markaðnum verði ekki ofgert þannig að sala geti verið sem næst markaðsverði.“
Í fjórða lagi er lagt til sölu með útgáfu skiptanlegra skuldabréfa.
Um sjö þúsund hafa þegar selt
Í fjárfestakynningu vegna síðasta birta uppgjörs Íslandsbanka kom fram að hluthafar í Íslandsbanka hefðu verið yfir 17 þúsund talsins í lok september. Eftir útboðið í sumar voru hluthafarnir um 24 þúsund talsins. Það þýðir að um sjö þúsund hafa þegar selt hlut sinn í Íslandsbanka á þeim tíma sem liðin er frá hlutafjárútboðinu.
Sá háttur var hafður á í útboðinu að allir sem skráðu sig fyrir einni milljón króna eða minna myndu ekki skerðast ef eftirspurn yrði umfram framboð. Þetta var gert til að draga sem flesta að þátttöku. Eftirspurnin reyndist níföld.
Hlutabréf í bankanum hækkuðu um 20 prósent strax á fyrsta degi eftir skráningu á markað og hafa síðan hækkað jafnt og þétt.
Sá sem keypti hlut í Íslandsbanka af íslenska ríkinu á eina milljón króna í júní gæti selt þann hlut í dag á um 1,65 milljónir króna, og þar með hagnast um 650 þúsund krónur á nokkrum mánuðum.
Bankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2021, sem er sá fyrsti sem leið eftir skráningu hans á markað, og arðsemi eigin fjár hans var 15,7 prósent. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagnaður Íslandsbanka 16,6 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár hans á ársgrundvelli var 11,7 prósent.
Hreinar þóknanatekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins jukust um 20,1 prósent frá sama tímabili í fyrra og vaxtatekjur hans hækkuðu um 1,1 prósent, en þær voru 25,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 55,3 í 46,6 prósent milli ára en stjórnarkostnaður hækkaði, aðallega í tengslum við skráningu Íslandsbanka á markað, aukins launakostnaðar vegna kjarasamningshækkana og kostnaðar vegna uppsagna.