Max Schrems, austurrískur lögfræðistúdent, flutti í dag prófmál fyrir dómstólum á Írlandi gegn Facebook. Schrems fer fyrir hópi 25.000 Facebook-notenda sem telja vegið að friðhelgi einkalífs þeirra á Facebook.
Facebook hefur, að mati Schrems brotið gegn ýmsum réttindum sem fólki eru tryggð í Evrópulöggjöfinni. Þá er þáttaka samfélagsmiðilsins í PRISM, eftirlitsverkefni bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, einn liður í málflutningi Schrems.
„Við erum einfaldlega að biðja Facebook að hætta njósnum,“ sagði Schrems í viðtali við AFP-fréttastofuna sem greinir frá. „Við viljum líka að miðillinn sé með alvöru notendaskilmála sem fólk getur skilið og að Facebook hætti að safna gögnum um fólk sem er ekki einu sinni með reikning á Facebook.“
„Það eru fjölmörg atriði í þessari kæru og við vonumst til að vinna í öllum liðum hennar og setja þannig fordæmi gegn bandarískum upplýsingasafnandi fyrirtækjum,“ segir hann og segir það jafnvel verða áhugavert tapi hann málinu vegna þess að það muni vekja upp áhugaverðar spurningar um hvers vegna lögum sé ekki framfylgt.
Höfuðstöðvar Facebook í Evrópu eru í Dublin á Írlandi. Þaðan sinnir Facebook öllum reikningum notenda utan Bandarikjanna og Kanada. Samtals eru það um 80 prósent af öllum notendum Facebook sem eru um 1,35 milljarðar.
Forsvarsmenn Facebook hafa ekki viljað tjá sig um lögsóknina.
Höfuðstöðvar Facebook í Dublin eru glæsilegar, í takt við umsvif samfélagsmiðilsins á vefnum.
Áhugi fólks á lögsókn Schrems hefur verið gríðarlegur síðan hann tilkynnti um fyrirætlanir sínar í ágúst í fyrra. Hann gaf fólki kost á að taka þátt í málinu og innan nokkurra daga höfðu mörg þúsund manns sýnt áhuga, ekki aðeins frá Evrópu heldur einnig frá Asíu, Suður-Ameríku og Ástralíu.
Schrems kaus þó að hafa hópinn ekki stærri en 25.000 manns en þegar hafa 55.000 manns til viðbótar skráð sig til þátttöku á síðari stigum málsins.
Hver og einn þessara 25.000 krefst 500 evra í skaðabætur fyrir meint brot á friðhelgi einkalífs síns. Það eru um það bil 73.500 íslenskar krónur á mann. Schrems segir í viðtalinu við AFP að málið gangi út á að grundvallarmannréttindi verði að virða.
„Við höfum friðhelgislög í Evrópu sem ekki er verið að framfylgja. Aðalatriðið er þetta: þurfa veffyrirtæki að fylgja lögum eða búa þau í einhverskonar viltu vestri þar sem þau geta gert það sem þeim sýnist?“
Schrems stundaði nám í Kísildalnum þar sem stærstu nýsköpunarfyrirtæki veraldar hafa aðalhöfuðstöðvar sínar, þar á meðal Facebook. Hann segir nálgun flestra í Kísildalnum þá að hægt sé að gera það sem maður vill í Evrópu án þess að þurfa að gjalda þess.
Auk þess að reka málið fyrir dómsstólum hefur hópur Schrems kvartað formlega undan Facebook á Írlandi. Málið hefur nú verið sent áfram til Evrópudómstólsins vegna þess að írsk yfirvöld hafa ekki viljað hefja rannsókn á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs fólks.
Niðurstöðu úr þeim málum er að vænta á næsta ári og gætu hugsanlega haft víðtæk áhrif á starfsemi bandarískra tæknifyrirtækja í Evrópu.
Evrópa hefur verið eitt helsta vígi aðgerðarsinna gegn stórum bandarískum vefrisum. Skemmst er að minnast dómsúrskurðar í Evrópu um að allir eigi rétt á að gleymast á vefnum. Google neyddist í kjölfarið til að eyða upplýsingum um einstaklinga úr skrám sínum ef þeir óska eftir því, að ákveðnum forsendum uppfylltum.
Microsoft hlaut jafnframt útreið í Evrópu þegar evrópskir dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að tölvurisinn hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að meina framleiðendum annarra vefvafra aðgangi að Windows-stýrikerfinu. Í kjölfarið spruttu fjölmargir vafrar sem vefverjar geta notað til viðbótar við Explorer-vafra Microsoft.