Tillaga var nýverið lögð fyrir sveitarstjórn Skaftárhrepps um örnefni áður nafnlausan fjallstind í Vatnajökli. Lagt er til að tindurinn fái nafnið Helgatindur, til heiðurs Helga Björnssyni jöklafræðingi.
Að tillögunni standa Gunnar Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, Snævarr Guðmundsson, Sviðsstjóri Náttúrustofu Suðausturlands og Leifur Örn Svavarsson, fjallaleiðsögumaður.
Tindurinn sem um ræðir er 1.374 metrar á hæð og er um 2,5 kílómetra vestan frá Geirvörtum og um 4 kílómetra norðaustur af Hágöngum og er innan Skaftárhrepps.
Í bréfi sem þremenningarnir sendu sveitarstjórn kemur fram að hann tilheyri Þórðarhyrnu-eldstöðvarkerfinu sem er virk megineldstöð, og tengdur hnjúkaröð með stefnu í Þórðarhyrnu. Aðrir tindar í þessari hnjúkaröð eru þó á kafi í jökli og sjást ekki, en þeir komu fram í íssjármælingum Helga Björnssonar jöklafræðings sem voru gerðar á síðustu áratugum, til þess að rannsaka botn Vatnajökuls. Umræddur tindur mun þó hafa staðið upp úr jökulyfirborðinu, alla vega á 20. öld.
Samkvæmt íslenskri eldfjallasjá hefur virkni þó verið lítil í þessari megineldstöð síðustu 10-12 þúsund ár en síðasta gos var þó árið 1903.
Til suðurs frá tindinum skríður Beinadalsjökull en að norðan og vestan Síðujökull. Hann er myndaður úr rýólíti (líparít) og nokkuð ljós-/gráleitur ásýndar. Tindurinn rís um 60 metra upp úr jöklinum og þar sem hann er svipaður að hæð og Geirvörtur sést hann víða að. Til suðurs frá honum er fjallshryggur, einnig í jökli, en hefur orðið sífellt meira áberandi á síðustu árum vegna hörfandi jökla. „Með tíð og tíma á tindurinn sjálfur eftir að verða jafnvel enn meira áberandi vegna jöklarýrnunar,“ skrifa þremenningarnir.
„Við leggjum til að hann verði nefndur Helgatindur, til heiðurs Helga Björnssyni jöklafræðingi,“ skrifa þeir svo.
Kortlagði allan botn Vatnajökuls
Helgi Björnsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands hefur áratugum saman rannsakað jökla landsins, ásamt samstarfsmönnum sínum. Meðal annars kortlagt allan botn Vatnajökuls með ísjá þannig að hægt var að sjá nákvæmlega landslagið undir jöklinum. „Um er að ræða mikið vísindalegt afrek sem hefur haft ómetanleg áhrif á þekkingu á jöklafræði á Íslandi og í heiminum,“ segir í bréfinu.
Vegna þessarar kortlagningar hefur verið hægt að útbúa spálíkön um framtíð jöklanna, með tilliti til loftslagsbreytinga, afmarka vatnasvið einstakra skriðjökla sem sumir eru vatnsforðabúr til raforkuframleiðslu, meta jöklabúskap og leggja til gögn sem nýtast í að meta hvernig þeir hafa þróast frá landnámi.
„Með þessu merka framlagi hafa opnast ný tækifæri til þess að auka þekkingu okkar enn frekar á íslenskum jöklum. Með þessari nafngift viljum við heiðra Helga fyrir hans vísindastörf,“ skrifa þeir Gunnar, Snævarr og Leifur Örn og óskuðu svo eftir því að sveitarstjórn tæki erindið til skoðunar og afgreiðslu.
Sveitarstjórnin tók erindið til afgreiðslu á fundi í síðustu viku og samþykkti samhljóða fyrir sitt leyti tillögu að nýju örnefni á fjallstindinn. Erindinu var svo vísað til endanlegrar ákvarðanatöku nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.