Þingmenn Flokks Fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér vilja til að Alþingi álykti að fela Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra að beita sér fyrir því að framkvæmdir við Sundabraut verði hafnar á næsta ári og lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr. Þingflokkurinn vill að brautin verði lögð með brú milli Kleppsvíkur og Gufuness.
Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að gerð Sundabrautar hafi tafist of lengi. Hún hafi fyrst verið sett fram sem hugmynd árið 1975 og komið fyrst inn á aðalskipulag Reykjavíkur árið 1984, en flokkspólitískar deilur í Reykjavík hafi orsakað að verkefninu var sífellt frestað. „Nú þurfa stjórnvöld og stjórnmálamenn að taka ákvörðun um framhaldið og bera ábyrgð á henni. Búið er að rannsaka alla valkosti og niðurstöðurnar eru skýrar. Sundabrú er hagkvæmasti kosturinn. Því er ekkert til fyrirstöðu að ákveða endanlega leiðarval og hefja strax undirbúning.“
Mikill samfélagslegur ábati
Í janúar 2022 voru kynntar niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar um lagningu Sundabrautar. Niðurstöðurnar sýndu fram á mikinn samfélagslegan ábata af verkefninu, á milli 185-236 milljarða króna.
Í yfirlýsingu Sigurðar Inga og Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík, undirritaðri 6. júlí 2021, kemur fram að stefnt sé að því að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist eigi síðar en 2026 og brautin verði tekin í notkun 2031, með eðlilegum fyrirvörum um niðurstöðu samráðs og umhverfismats.
Flokkur fólksins telur að undirbúningur stofnframkvæmda þurfi ekki að taka svo langan tíma sé vilji fyrir hendi. „Það ætti að vera hægt að hraða mati á umhverfisáhrifum um helming og hægt er að ljúka við hönnun, rannsóknir og undirbúning fyrir ársbyrjun 2023 án þess að það komi niður á gæðum þessara verkþátta og útboðsferlið getur þá farið fram á árinu 2023 og yrði lokið innan árs.“
Leiðir til þess að fleiri velji bílinn
Í áðurnefndri félagshagfræðilegri greiningu frá verkfræðistofunum Mannviti og COWI, kom fram að mestur ábati við lagningu Sundabrautar felist í færri eknum kílómetrum, minni útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Þar var þess þó einnig getið, í umfjöllun um áhrif á umferð einkabílsins, að minni umferðartafir og styttri ferðatími þýði að „fleiri muni velja bílinn sem sinn samgöngumáta, og fleiri bílar muni koma á göturnar“ sem dragi að einhverju leyti úr styttingu ferðatíma og fækkun ekinna kílómetra, sem þó er umtalsverð eða á bilinu 128-140 þúsund kílómetrar daglega.
Þannig var gengið út frá því í skýrslunni að Sundabraut muni fjölga bílferðum, miðað við að engin Sundabraut verði byggð, á kostnað bæði ferða með almenningssamgöngum og ferðum á hjóli. Talið að að daglegum bílferðum muni fjölga um 2.550-5.000 með tilkomu Sundabrautar – mest ef jarðgöng verði fyrir valinu.
Niðurstaða greiningarinnar frá Mannviti og COWI var þó sú að Sundabraut, hvort heldur sem er í jarðgöngum eða um brú, hafi mikinn samfélagslegan ávinning og sé metin samfélagslega hagkvæm framkvæmd sem slík.