Sósíalistaflokkurinn hefur sent frá sér tilboð til kjósenda í tilefni af 17. júní sem snýst um að endurheimta fiskveiðilögsöguna úr höndum útgerðaraðalsins, að nýta auðlindir lands og sjávar til að byggja hér upp réttlátara samfélag, að efla verkalýðshreyfinguna og kveikja enn frekari hagsmunabaráttu almennings, að lýðræðisvæða atvinnulífið, að styrkja alla lýðræðisuppbyggingu sveitarfélaga, ríkisvalds og opinberra stofnana, að vinna gegn elítustjórnmálum með slembivöldu stjórnlagaráði og frekari þróun lýðræðis og setja skýr samfélagsleg markmið um alla uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum í dag.
Í tilboðinu kemur fram að Ísland standi nú á tímamótum við lok tímabils sem kennt hefur verið við nýfrjálshyggjuna. „Á þeim tíma voru samfélagsstoðir veiktar og nokkuð af þeim árangri sem náðst hafði með skipulagðri verkalýðsbaráttu á síðustu öld gekk til baka. Innviðir samfélagsins og helstu grunnkerfi eru nú veik og valdaójafnvægi hefur vaxið. Fram undan eru tæknibreytingar sem að óbreyttu auka enn við auð og völd hinna fáu, en munu skilja hin fátækari og valdalausari eftir. Og eins og hinn fjármálavæddi kapítalismi hefur brotið niður samfélögin hefur hann líka gengið svo á náttúrugæði að framtíð mannkyns og lífríkisins er í hættu,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur hjá sósíalistum að tilboð þeirra til kjósenda á þessum tímamótum sé að mæta þessum ógnum með samtakamætti almennings, með það að markmiði að byrðunum verði dreift jafnt en ávinningnum einnig.
„Nýliðin saga sýnir okkur hvers almenningur er megnugur ef honum auðnast að byggja upp samstöðu innan skipulagðrar baráttu. Afar okkar og ömmur, langafar og langömmur, hófu baráttu allslausrar alþýðu, réttinda- og eignarlauss fólks sem átti ekkert annað en vonina um betra samfélag. Þessu fólki tókst að umbreyta stöðu sinni í samfélaginu, bæta lífskjör sín og réttindi, og hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins komandi kynslóðum til heilla.
Við erum þær kynslóðir. Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það. Og það er skuld okkar við fólkið sem háði baráttuna á síðustu og þar síðustu öld, að skilja svo við samfélagið að staða alþýðu manna sé miklum mun betri þegar við skilum samfélaginu af okkur en þegar okkur var treyst fyrir því,“ segir í tilkynningunni.