Meirihluti velferðarnefndar leggur til að áfram verði leyfilegt að selja nikótínvörur með bragðefnum hér á landi, en þetta kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu vegna frumvarps Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um nikótínvörur.
Í því frumvarpi var lagt til að bragðefni í nikótínvörum á borð við níkótínpúða eða vökva í rafrettur yrðu bönnuð. Meirihluti nefndarinnar rekur að þetta hafi verið gagnrýnt í nokkrum umsögnum til nefndarinnar og bendir einnig á að rannsóknir á áhrifum bragðefna í nikótínvörum séu af skornum skammti.
„Í umsögnum og umfjöllun um málið í nefndinni hafa komið fram mjög skiptar skoðanir um bann við notkun bragðefna í nikótínvörum. Innan nefndarinnar eru jafnframt uppi ólík sjónarmið varðandi bragðbann. Þrátt fyrir að bann við notkun bragðefna kunni að skila árangri til að draga úr neyslu barna og ungmenna á níkótínvörum er það niðurstaða meiri hlutans að frekari vinnu þurfi við að greina áhrif slíkra aðgerða og mögulegar leiðir við að framfylgja slíku banni,“ segir í umsögn meirihlutans, sem leggur til að ákvæði um „bragðbannið“ verði fellt út úr frumvarpinu.
Meirihlutinn segir ljóst að meiri tíma þurfi til að útfæra slíkt bann og skjóta undir það traustari stoðum. Bannið sé ekki nægilega vel undirbyggt, eins og það hafi verið sett fram í frumvarpinu.
Þingmennirnir átta sem rita undir meirihlutaálitið hvetja því heilbrigðisráðuneytið og eftirlitsaðila til að halda áfram að fylgjast með „alþjóðlegum rannsóknum og stefnumótun varðandi áhrif bragðefna á neyslu nikótíns og leiðum til að draga úr því.“