Vinstri græn setja fram kosningaáherslur sínar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í undir slagorðinu „Göngum lengra í Reykjavík“.
Flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borginni árið 2017 og einn borgarfulltrúa kjörinn, Líf Magneudóttur, sem áfram leiðir listann nú. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar verða Vinstri græn áfram með einn borgarfulltrúa, en þó nærri því að ná inn öðrum manni, með 6,7 prósenta fylgi.
Vinstri græn setja fram kosningaáherslur á vef sínum sameiginlega fyrir öll sveitarfélög þar sem flokkurinn býður fram, en eru svo einnig með sérstakar kosningaáherslur í Reykjavík. Kjarninn skoðaði áherslumál flokksins í borginni og tók saman það helsta.
Borgin standi að byggingu almennra leiguíbúða
Í húsnæðismálum segist flokkurinn ætla sér að byggja árlega á bilinu 500-1.000 „Reykjavíkurbústaði“, sem yrðu almennar leiguíbúðir í eigu borgarinnar. Þetta segir flokkurinn að eigi að verða hrein viðbót við aðra uppbyggingu íbúða sem er fyrirhuguð samkvæmt húsnæðisáætlun borgarinnar.
Vinstri græn vilja einnig fjölga leiguíbúðum Félagsbústaða um og íbúðum fyrir fatlað fólk um samtals 700 á kjörtímabilinu. Þá segist flokkurinn ætla að „tryggja heimilislausu fólki húsnæði á þeirra forsendum“ og „byggja upp kröftug og lifandi hverfi um alla borg með því að þétta byggð og fullbyggja skipulögð hverfi“.
Vinstri græn segjast vilja ráðast í breytingar á aðalskipulagi Reykjavikur, „þannig að í öllu skipulagi sé meira pláss lagt undir mannlíf, gróður og vistvænar samgöngur og að minnihluti pláss fari undir bíla og bílastæði,“ og einnig vill flokkurinn „grænni götur“ og „vinda ofan af malbiki með borgarhönnunarstefnu.“
Flokkurinn segist vilja endurheimta almannarýmið frá bílum og að bílastæði eigi „betur heima í bílakjallara eða bílastæðahúsi en ofanjarðar“. Þá segir í kosningaáherslunum að mislæg gatnamót ættu að „verða víkjandi í skipulagi borgarinnar“ þar sem það sé „betra fyrir lífsgæðin að nýta borgarlandið undir húsnæði og græn útivistarsvæði“.
Gjaldfrjáls leikskóli og skólamatur
Vinstri græn hafa það á stefnuskrá sinni að menntun barna verði gjaldfrjáls bæði í leik- og grunnskólum og að máltíðir í skólunum verði einnig endurgjaldslausar.
Hvað skólamál varðar segist flokkurinn einnig vilja búa betur að kennurum, nýta tækni meira í skólastarfi og auka stuðning við börn með annað móðurmál en íslensku.
Vinstri græn vilja einnig svokallaða „Vísindaveröld“ í borgina, en það yrði safn eða miðstöð þar sem hægt yrði að fræðast um heiminn og náttúruna. Stefán Pálsson, sem situr í 2. sæti á lista flokksins, útskýrði þetta stefnumál betur í blaðagrein og sagði verkefnið þurfa að vinnast í samstarfi borgar, ríkis og háskólanna. Hann sagði VG horfa sérstaklega til þess að Vísindaveröld yrði fundinn staður í Keldnaholtslandinu.
Í kosningaáherslum Vinstri grænna er einnig lagt til að sumarfrístundakort verði tekin upp, svo öll börn geti notið frístundastarfs allt árið um kring. Flokkurinn segist líka vilja færa menningarstarf, listnám og tónlistariðkun „nær börnum“, fjölga plássum í skólahljómsveitum Reykjavíkur og bæta aðstöðu þeirra.
Vilja flýta Borgarlínu og endurvekja næturstrætó
Vinstri græn segjast ætla að flýta Borgarlínu framkvæmdum við hjólastíga og tryggja að vistvænir ferðamátar verði „sjálfsagður valkostur borgarbúa“.
Flokkurinn segir Strætó vera grunnþjónustu og að lykilleiðir eigi að „ganga lengi og vera tíðar“, auk þess sem endurvekja skuli næturstrætó, en næturstrætó hætti að ganga eftir að næturlíf miðborgarinnar lognaðist af í kórónuveirufaraldrinum og hefur ekki verið endurvakinn.
Vinstri græn segjast einnig ætla sér að „endurskoða fyrirkomulag vetrar- og vorþjónustu svo við fáum ekki óyfirstíganlega skafla og sandfok“.
Fleiri ákvarðanir með íbúakosningum
Vinstri græn segjast ætla að tryggja aðkomu íbúa að skipulagsmálum frá fyrstu stigum verkefna, og segist flokkurinn vilja að íbúar taki fleiri ákvarðanir, „m.a. með íbúakosningum um tiltekin mál og íbúaþingum.“
Þá vill flokkurinn að borgin nýti sér „fjölbreytt lýðræðistæki eins og skoðanakannanir og rökræðukannanir við uppbyggingu í hverfunum“ og sjá slembivalda fulltrúa setjast í íbúaráð borgarinnar, til að „tryggja fjölbreyttari raddir íbúa við stefnumótun og ákvarðanatöku“.
Vinstri græn segjast einnig ætla að vanda betur alla áætlanagerð í borginni og rýna áætlanir með „mælikvörðum velsældar og kynjasjónarmiða og umhverfisáhrifa“. Þá vill flokkurinn að loftslagsáhrif fjárfestinga verði metin og þær kolefnisjafnaðar, ef tilefni sé til.
Flokkurinn segist ætla að sýna ráðdeild í rekstri og forgangraða fjármunum til verkefna sem auki lífsgæði fólks. Þar verði umhverfisvæn og félagsleg uppbygging og fjárfestingar í innviðum í forgrunni. Vinstri græn segjast líka vilja vinna með ríkinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga „að útfærslu á styrkari tekjustofnum til höfuðborgarinnar“.
Borgarlandverðir og meira fyrir hestamenn
Það kennir ýmissa grasa í stefnuskrá Vinstri grænna í borginni. Flokkurinn segist vilja ráða borgarlandverði, sem eiga að hafa það hlutverk að sinna fræðslu og eftirliti með borgarlandinu. Þá vill flokkurinn stórauka fræðslu til Reykvíkinga um umhverfismál, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið, auk þess að standa vörð um strandlengjuna og endurheimta röskuð svæði.
Mörg stefnumála VG eru fremur almenn, en sum afar sértæk. Eitt af þeim sértækari er að flokkurinn segist styðja hugmyndir hestamannafélagsins Fáks um að stækka félagssvæðið og „gera hestaíþróttina aðgengilegri fyrir okkur öll.“
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um framlagðar stefnuskrár flokka í Reykjavík á næstu dögum