Dönsku stjórnarandstöðuflokkarnir vilja að söfn landsins fái leyfi til að selja muni, til dæmis húsgögn og nytjahluti sem mörg eintök eru til af, fornmuni sem aldrei eru sýndir í safninu af eða listaverk sem rykfalla í geymslum og aldrei komast í sýningasalina. Danski menningarmálaráðherrann segir að slíkt komi ekki til greina, hugmyndin sé beinlínis fráleit.
Flest eða öll söfn um víða veröld eiga þúsundir muna sem aldrei koma fyrir sjónir almennings en fylla geymslupláss safnanna. Söfnin kaupa, eða fá að gjöf fjölda verka eða muna á ári hverju en losa sig aldrei við neitt. Þetta er eins og á heimili þar sem stöðugt er keypt eitthvað nýtt en engu má henda, það gamla fer í geymsluna í kjallaranum og rykfellur þar ár og síð. Þegar svo þarf að finna eitthvað í geymslunni, jólaskrautið til dæmis, þarf að færa gamla skápinn, kistuna, eða útvarpið hans afa ( nú eða fótanuddtækið) og þá er haft á orði að það sé nú aldeilis óþarfi að geyma allt þetta gamla drasl, sem enginn vilji, og best væri að losa sig við þetta dót. Svo gerist ekkert og sagan endurtekur sig ári seinna, þetta þekkja allir.
Vilja að söfnin fái að selja
Eins og mörg söfn um víða veröld, kannski flest, vaða dönsk söfn ekki í peningum. Þau hafa á undanförnum árum ekki farið varhluta af kreppunni og berjast í bökkum. Nú hafa dönsku stjórnarandstöðuflokkarnir (bláa blokkin svonefnda) viðrað þá hugmynd að söfnum landsins verði heimilað að selja muni í eigu þeirra, með tilteknum skilyrðum. Muni, hverju nafni sem þeir nefnast, sem ekki teljast sérlega merkilegir, annað hvort vegna þess að margir nákvæmlega eins eða líkir munir eru í eigu safnsins. Þetta gæti átt við um húsgögn og búsáhöld, handverksmuni, gamla peningaseðla og mynt svo eitthvað sé nefnt. Þetta gæti sömuleiðis átt við um listaverk, til dæmis grafíkverk þar sem safnið á kannski mörg eins verk sama listamanns. Slík sala gæti skapað söfnunum tekjur.
Marianne Julved líst vægast sagt ekki vel á framkomnar hugmyndir um að dönsk söfn fái heimild til að selja safnmuni.
Ekki ný hugmynd
Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn Venstre (sem ekki er vinstriflokkur þrátt fyrir nafnið) hefur lengi verið fylgjandi því að söfnum landsins verði heimilt að selja úr geymslunum, eins og talsmaður flokksins orðaði það í blaðaviðtali. Nú hefur það hins vegar gerst að aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa tekið undir þessa hugmynd en það hafa þeir ekki áður gert.
Mjög slæm, reyndar fráleit hugmynd segir menningarmálaráðherrann Marianne Jelved menningarmálaráðherra segist ekki skilja hvernig nokkrum geti dottið annað eins og þetta í hug. Hlutur sem liggur í geymslunni í dag getur allt í einu fengið nýtt hlutverk, það sem ekki þykir svo merkilegt núna getur orðið það á morgun eða eftir tíu ár. Um það getur enginn sagt sagði ráðherann í viðtali við eitt dönsku blaðanna. Marianne Jelved sagði líka að söfnin fengju margar gjafir og það væri hrein móðgun við gefendurna ef viðkomandi hlutur yrði svo seldur. „Söfnin eiga ekki að verða uppboðshús,“ sagði ráðherrann.
Safnafólk tekur hugmyndinni illa
Margt safnafólk hefur tjáð sig um hugmyndir stjórnarandstöðunnar og nær undantekningalaust lýst sig andsnúið þeim. Flestir úr þessum hópi telja hugmyndina um að selja muni til að afla tekna fyrir söfnin mjög slæma og jafnvel hættulega. Einn safnstjóri sagði að ef þessi söluhugmynd yrði að veruleika væri stutt í það að fjárveitingavaldið myndi skera niður það fjármagn sem söfnin fengju og ætlast til þess að söfnin myndu afla aukins fjár með sölu á safnmunum. „Við getum ekki samþykkt slíkt,“ sagði þessi safnstjóri sem stýrir einu af stærri söfnum landsins.