Allt of litlu fjármagni er varið til rannsókna í ferðaþjónustu og fjármagninu er ekki nægilega markvisst varið að mati Samtaka ferðaþjónustunnar (SF). Í umsögn samtakanna við fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 er lagt til að fjárveiting til rannsókna í ferðaþjónustu verði hækkuð um 250 milljónir króna árlega á gildistíma fjármálaáætlunar „til að auka og bæta rannsóknir í ferðaþjónustu, sbr. markmið stjórnarsáttmála um eflingu rannsókna, nýsköpunar og menntunar í ferðaþjónustu.“
SF vill þar af leiðandi margfalda fé til rannsókna á tímabilinu en samtökin áætla að það fé sem varið sé til rannsókna muni nema 225 milljónum í ár og á næsta ári en lækka í 175 milljónir árið 2024 samkvæmt fjármálaáætlun. Samtökin gagnrýna framsetningu á framlögum til málaflokksins sem þau segja vera „engan veginn gagnsæ þegar reynt er að rýna í hver áform stjórnvalda eru á sviði rannsókna, stuðningsumhverfis eða uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.“
Ástæðan fyrir þessari gagnrýni er sú að fjármagn til rannsókna fellur undir sama útgjaldalið og útgjöld til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu í fjármálaáætlun. Framlög til þessa útgjaldaliðs munu nema rétt rúmum milljarði í ár og á næsta ári en lækka niður í 810 milljónir árið 2024.
Gagnrýna fyrirferð Jafnvægisáss ferðamála
Í umsögninni segir að meginmarkmið með rannsóknum atvinnuvega eigi að miða að sem mestri hagsæld. Hins vegar telja samtökin að of mikil áhersla sé lögð á að rannsóknir í ferðamálum skuli taka mið af gagnaöflun fyrir þolmarkamælikvarða Jafnvægisáss ferðamála, „jafnvel að því marki að það hafi hamlandi áhrif á aðrar mikilvægar rannsóknir í greininni.“ Jafnvægisás ferðamála er mælitæki sem er notað til að meta áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins.
Finna má samanburð á útgjöldum til rannsókna í ferðaþjónustu og útgjöldum til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í bæði sjávarútvegi og landbúnaðarmálum og þær tölur settar í samhengi við vinnsluvirði greinanna. „Lengi vel var vægi ferðaþjónustu í vinnsluvirði á grunnvirði um 3-4% en frá árinu 2010 hefur vægi hennar hækkað úr 3,3% af VLF í 7,5%“
Ábendingum atvinnulífsins ekki verið sinnt
Til samanburðar er vinnsluvirði í landbúnaði um og undir eitt prósent af VLF en vinnsluvirði sjávarútvegsins á bilinu 5,9 til 7,1 prósent. Á árunum tveimur fyrir kórónuveirufaraldur var vinnsluvirði ferðaþjónustunnar meira en sjávarútvegsins sem hlutfall af VLF en í kjölfar kórónuveirufaraldurs breyttist það að hlutdeild ferðaþjónustunnar hrundi á árinu 2020.
„Því miður hefur ábendingum atvinnulífsins um stóraukna rannsóknaþörf í ferðaþjónustu lítið sem ekkert verið sinnt árum saman. Þar að auki eru Ferðaþjónustureikningar (TSA) nú framkvæmdir fyrir tímabundið samningsfé í gegnum ráðuneyti ferðamála en eru ekki fjármagnaðir sem eðlilegur og fastur hluti verkefna Hagstofu Íslands,“ segir í niðurlagi umsagnar SF sem leggur til að tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 verði endurskoðuð.