Þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli forsætisráðherra að skipa nefnd um nýtt starfsheiti ráðherra sem endurspegli betur veruleika og hugsunarhátt dagsins í dag.
Í tillögunni segir að verði nefndaskipanin samþykkt skuli umfjöllun nefndarinnar lokið eigi síðar en 1. september 2022 og liggi þá fyrir tillögur sem forsætisráðherra hafi til hliðsjónar við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðmundur Andri Thorsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, en þingmenn úr hans eigin flokki, Pírötum og Flokki fólksins eru einnig á tillögunni.
Í greinargerð sem fylgir tillögunni er bent á að þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 hafi upphaflega staðið til að starfið kallaðist „ráðgjafi“ en því var breytt áður en fyrsti íslenski ráðherrann tók til starfa. „Þess má geta að árið 1904 voru konur ekki einu sinni komnar með kosningarrétt og það var því fjarlægur möguleiki að kona gegndi starfi ráðherra þegar starfsheitið varð til. Í erlendum málum eru sambærileg starfsheiti ekki kynbundin á sambærilegan hátt. Í sumum málum er talað um „kanslara“ eða „chancellor“ í þessu sambandi, eða „minister“, sem kallast á við prestþjónustu. Í Færeyjum eru að störfum „landsstýrismenn“ og „l.gmaður“, og þannig má áfram telja.“
„Engum datt heldur í hug að ávarpa frú Vigdísi forseta sem herra“
Flutningsmenn segja að undanfarin ár hafi átt sér stað vitundarvakning í samfélaginu um hvernig tungumálið hefur um aldir endurspeglað valdahlutföll kynjanna, þar sem karlkynið sé hið ráðandi kyn. „Þannig er orðið „maður“ í daglegu tali bæði haft um karlmenn sérstaklega og mannkynið yfirleitt, sem sýnir okkur að einungis virðist hafa verið gert ráð fyrir einu kyni í opinberu rými. Konur hafa um aldir verið sjaldséðar og lítt sýnilegar á vettvangi stjórnmála, þingstarfa, vísinda, lista, fjölmiðla, fræða og annars staðar í opinberu rými. Kvennabarátta síðustu aldar breytti þessu. Konur kröfðust réttinda og rýmis með þeim árangri að þær eru nú áberandi á ótal sviðum samfélagsins ekki síður en karlar. Tungumálið endurspeglar hinar fornu hugmyndir að nokkru leyti. Áberandi er að fólk reynir nú að komast svo að orði að tungutakið útiloki ekki aðrar manneskjur en karla. Af þeim sökum á karlkynið sem ráðandi málfræðikyn í vök að verjast. Hér getur Alþingi gengið á undan með góðu fordæmi.“
Myndi karlmaður sætti sig við að vera kallaður ráðfrú?
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingsályktunartillaga um nýtt starfsheiti ráðherra er lögð fram á Alþingi. Það gerðist líka árið 2007, fyrir næstum 15 árum síðan, þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram sambærilega tillögu.
Í greinargerð hennar sagði meðal annars að sú þróun hefði þá átt sér stað í hefðbundnum kvennastéttum þegar karlar hefðu haslað sér þar völl að starfsheitum hefði verið breytt til þess að bæði kynin geti borið þau. „Þannig urðu hjúkrunarkonur að hjúkrunarfræðingum, fóstrur urðu leikskólakennarar og Fóstruskóla Íslands var breytt í Fósturskóla Íslands, m.a. af tillitssemi við karla því að ekki þótti boðlegt fyrir karlmenn að vera kvenkenndir. Um eðlilega og sjálfsagða leiðréttingu var að ræða. Í seinni tíð er það orðið æ algengara að konur kalli sig framkvæmdastýrur og konur sem gegnt hafa aðstoðarmannsstörfum m.a. ráðherra og borgarstjóra hafa tekið upp titilinn aðstoðarkona. Ef orðin ráðherra og sendiherra væru t.d. „ráðfrú“ og „sendifrú“ hefði eflaust einnig þótt sjálfsagt að breyta starfsheitinu um leið og fyrsti karlmaðurinn tók að sér slíkt embætti. Það er því í fyllsta samræmi við þessa þróun að breyta einnig starfsheitum í hefðbundnum karlastéttum, þannig að konur geti borið þau. Ráðherraembætti eiga ekki að vera eyrnamerkt körlum.“
Í umræðum um tillöguna tóku nokkrir karlkynsþingmenn til máls og mæltu gegn tillögunni af ýmsum ástæðum. Einn þingmaður tók til máls og studdi það, Steinunn Þóra Árnadóttir úr Vinstri grænum.
Á meðal þeirra sem töluðu gegn því að breyta starfsheitinu var Árni Johnsen, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann sagði það út í hött að velta svona hlutum fyrir sér sem væru orðnir alveg kirfilega fastir í málinu og hafi í rauninni aldrei truflað neitt nema kannski sérvisku fólks. „En það má til að mynda nefna orðið „hetja“. Hetja er kvenkynsorð og þess vegna ætti það ekki að eiga við um karla. Karlmenn eru ekki svo ég viti til almennt að kveinka sér undan því að vera kallaðir hetjur en orðið er kvenkyns. Við þyrftum alveg eins að breyta því og mörgum öðrum ef við ætlum að fara að gera sérstakan greinarmun á þessu kynjalega séð.“
Grundvallaratriðið væri, að mati Árna, að konur séu líka menn. „Mér finnst bara gaman að þessu innleggi en ég er hræddur um að ýmsir karlmenn mundu kvarta yfir því ef þeir ættu ekki lengur kost á því að vera kallaðir hetjur, því að mörgum er í blóð borið að sækjast eftir slíku.“
Tillaga Steinunnar Valdísar var í kjölfarið svæfð í nefnd.