Lambhagavegur fasteignafélag ehf., sem er eigandi verslunarhúsnæðis Bauhaus, falast nú eftir því við Reykjavíkurborg að fá heimild til þess að reisa húsnæði undir matvöruverslun og aðra þjónustu á bílaplaninu við Bauhaus.
Fasteignafélagið telur að matvöruverslun á þessum stað muni koma til móts við þarfir aukins fjölda íbúa í Úlfarsárdal, sem í dag þurfi að aka yfir í önnur hverfi til þess að gera stórinnkaup til heimilisins.
Þetta kemur fram í innsendu erindi um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur, sem fasteignafélagið fól lögmannsstofu að senda til borgarinnar í ágústmánuði. Þar segir að verslunarhúsnæðið sem fasteignafélagið sér fyrir sér að reisa sé um 3-4.000 fermetrar og þar af yrði rými fyrir um 1.500 fermetra matvöruverslun.
Í erindi fasteignafélagsins segir að margt mæli með því að leyfi fáist til að setja upp matvöruverslun á þessum stað. Auk þess sem þörf íbúa til þess að keyra út úr hverfinu til þess að versla verði eytt sé staðsetningin, á mörkum stofnbrautar og tengibrautar innan hverfis, til þess fallin að stuðla að minni umferð innan hverfisins, þar sem verslunin sé „í leiðinni heim fyrir íbúa hverfisins“.
„Annar augljós kostur,“ segir í umsögninni, er sá að engin þörf verður á því að ryðja land undir og útbúa ný bílastæði, þar sem fyrirhuguð verslun muni nýta núverandi stæði á lóðinni.
Lambhagavegur verði eftirsóttur áfangastaður
Í erindinu segir frá því fasteignafélagið vinni nú að því að koma upp hleðslustæðum fyrir rafbíla, sérstökum stæðum fyrir deilihagkerfis-rafskútur, hágæða hjólastæðum og grænum svæðum á lóðinni, til að auðvelda aðgengi íbúa að svæðinu og fjölga valkostum í ferðum til og frá svæðinu.
„Tillögur að fyrirhugaðri matvöruverslun og öðrum sérverslunum með góðu og þægilegu aðgengi hjólandi og gangandi íbúa hverfisins mun gera Lambhagaveg 2-4 að eftirsóttum áfangastað í tengingu við framtíðar þjónustukjarna og/eða borgarlínustöð á Keldnaholti,“ segir í erindi fasteignafélagsins, þar sem óskað er eftir fundi með fulltrúum borgarinnar til að gera frekari grein fyrir tillögunum.