Ríkisstjórnin hefur sett af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“. Markmiðið er að skapa allt að 7.000 tímabundin störf hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir eru 4,5-5 milljarðar króna.
Frá þessu greindi Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra á blaðamannafundi sem hann hélt í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Kjarninn tók saman það helsta sem felst í aðgerðunum, samkvæmt fréttatilkynningu sem barst frá félagsmálaráðuneytinu.
Lítil fyrirtæki geta fengið 472 þúsund með langtímaatvinnulausum
Verið er að víkka út ráðningarstyrkina, en þeir eru eitt COVID-19 úrræða stjórnvalda og voru kynntir til sögunnar síðasta haust.
Lítil og meðalstór fyrirtæki, með undir 70 starfsmenn, munu geta sótt um ráðningarstyrki til þess að ráða starfsmenn sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Það myndast þannig hvati fyrir fyrirtæki til þess að ráða fólk til starfa sem hefur verið lengi án vinnu, en sá hópur hefur farið ört vaxandi í COVID-kreppunni.
„Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Grunnatvinnuleysisbætur með öllum sem hafa verið án vinnu í 30 daga
Fyrirtæki af öllum stærðum munu áfram geta fengið ráðningarstyrk sem nemur grunnatvinnuleysisbótum ef þau ráða starfsmenn sem hafa verið án vinnu í 30 daga eða lengur. Styrkurinn með hverjum starfsmenni er til allt að sex mánaða.
Grunnatvinnuleysibætur eru 307.430 krónur á mánuði, en að auki fær fyrirtækið styrk til að standa straum af 11,5 prósentum af framlagi í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið.
Allt að 472 þúsund með öllum sem eru að fullnýta bótarétt
Sérstakar aðgerðir eru fyrir þá eru við það að fullnýta bótarétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu.
Vinnumálastofnun greiðir ráðningastyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningu einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti.
Stofnuninni er heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði fyrir þessu er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.
Sveitarfélögum er einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.
Félagasamtök geta fengið styrk fyrir tímabundna starfskrafta
Félagasamtökum sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði auk 11,5 prósenta mótframlags í lífeyrissjóð. Krafa er að þeir sem ráðnir eru til félagasamtaka hafi verið án atvinnu í meira en eitt ár.
Einnig verður greitt 25 prósent álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og fleira.
Sumarstörf fyrir námsmenn kynnt síðar
Boðað er í tilkynningu ráðuneytisins að stjórnvöld ætli sér að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar. Það verður kynnt síðar í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Félags-og barnamálaráðherra segir að um sér að ræða „gríðarlega stórar aðgerðir fyrir bæði atvinnuleitendur og atvinnulífið“ sem hjálpi til við öfluga viðspyrnu að loknum faraldri.
„Ég hvet fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök til að nýta þetta úrræði og ráða fólk. Við mætum óvissunni með krafti og bjartsýni og saman keyrum við þetta í gang,” er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningu ráðuneytisins.
Athugasemd ritstjórnar: Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði ranglega að það væri nýnæmi að fyrirtæki gætu fengið 100 prósent af grunnatvinnuleysisbótum í styrk með starfsmönnum sem hefðu verið 30 daga á atvinnuleysisskrá. Þannig hefur það verið undanfarna mánuði, en þá á grundvelli undanþágu vegna mikils atvinnuleysis í landinu.