Stjórnvöld þurfa að móta skýra pólitíska sýn á hvernig orkufrekum iðnaði verði háttað hérlendis á næsta árum, samkvæmt nýrri skýrslu frá starfshópi á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Kjarninn hefur áður fjallað um skýrsluna, en hún snýr að stöðu og áskoranir í orkumálum. Höfundar hennar voru Vilhjálmur Egilsson, fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, og Ari Trausti Guðmundsson, fyrrum þingmaður VG.
Í skýrslunni er farið yfir gjaldeyristekjurnar sem orkufrekur iðnaður, þar á meðal álver, kísilver og gagnaver, hefur skapað á síðustu árum, en samkvæmt höfundunum hefur fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar komið þaðan.
Höfundarnir hafa einnig eftir Landsvirkjun og Landsneti að flestir viðskiptavinir fyrirtækjanna hyggjast starfa áfram á Íslandi og að áform séu til vaxtar hjá mörgum þeirra. Einnig greinir Landsnet frá því að fjölbreyttur iðnaður, meðal annars í matvælaframleiðslu, líftækni og fiskeldi, hafi leitað til fyrirtækisins varðandi tengingu við flutningskerfið á síðustu misserum.
Þá nefna þeir einnig framleiðendur vetnis og rafeldsneytis sem mögulega stórnotendur framtíðar, en þau bæta einnig við að Landsnet hafi þurft að hafna mörgum verkefnum á síðustu misserum vegna stöðu flutningskerfisins og/eða skorts á framboði á raforku. Þessi verkefni kalla höfundarnir „töpuð tækifæri,“ sem þeir meta að séu jafnmikil að umfangi og heildarumsvif gagnavera hérlendis og hefðu getað keypt orku fyrir 4-6 milljarða króna.
Samkvæmt starfshópnum er nauðsynlegt að fyrirtæki og sveitarfélög fái skýr skilaboð frá stjórnvöldum, orkuframleiðendum, Landsneti og dreifiveitum um á hvaða framtíðarvæntingum um orkuframboð og flutning megi byggja.
Líkt og Kjarninn hefur áður minnst á mun orkuþörfin hérlendis aukast töluvert ef ríkisstjórnin á að ná settum markmiðum um orkuskipti á vegum, sjó og í lofti fyrir árið 2040. Aukningin verður svo enn meiri ef gert er ráð fyrir að orkufrekur iðnaður muni halda áfram að vaxa.