Stærsta sjálfstæða brugghúsið í Skotlandi, Brewdog, ætlar á næstunni að safna 25 milljónum punda í hópsöfnun. Fyrirtækið segist vilja komast hjá því að fjármálafyrirtæki græði á fjármögnuninni, og kallar hópsöfnunina Equity for Punks, sem væri hægt að þýða sem Eigið fé fyrir pönkara. Nafnið er vísun í þekktasta bjór Brewdog, sem heitir Punk IPA.
526,316 hlutir í fyrirtækinu verða seldir í skiptum fyrir framlög almennings og lágmarkið verður tveir hlutir fyrir 95 pund. Fyrirtækið hefur áður ráðist í hópfjármögnun og safnaði 4,25 milljónum punda á innan við hálfu ári árið 2013. Með því var slegið met í hópfjármögnun en nú vill fyrirtækið fimmfalda þessa upphæð og slá ný met.
Brugghúsið rekur nú 27 bari um heiminn en fyrirtækið var stofnað af þeim Martin Dickie og James Watt árið 2007. Þeir keyptu notaðar brugggræjur og hófust handa, en í dag er Brewdog það vörumerki í mat og drykk í Bretlandi sem vex hvað hraðast. Bjórinn er seldur til 55 ríkja, hann er meðal annars fáanlegur á Íslandi, og 360 manns vinna hjá Brewdog.
Watt segir í nokkuð hástemmdri yfirlýsingu að bylting hafi orðið í vönduðum bjór (e. craft beer) og tekist hafi að endurskilgreina bjórinn. Nú sé komið að því að endurskilgreina fjármögnunarkerfi. Fjármálastofnanir hafi ýtt undir það að bjór sé lélegur og ódýr með því að hafa gróða alltaf að leiðarljósi.
„Til að leyfa Brewdog að vaxa en vera áfram trúir okkar sannfæringu höfum við þurft að búa til nýja kynslóð viðskiptamódela. Equity for Punks færir stjórnina til fólksins sem þykir vænt um bjórinn okkar, og þannig höldum við ástríðunni og trúverðugleikanum í bjórglösum fólks.
Við erum ekki Rockefeller, við erum Guy Fawkes. Við erum að brenna kerfið - normið - og búa til nýja framtíð fyrir fyrirtæki úr rústunum,“ sagði hann jafnframt og bætti því við að ýta ætti ríka fólkinu til hliðar og veita almenningi vald til að ráða eigin örlögum með því að fjárfesta í ástríðunni fyrir vönduðum bjór.
Fyrir áhugasama er hægt að fjárfesta í bjórfyrirtækinu hér.