Sænska skopmyndateiknaranum Lars Vilks var komið í skjól í kælugeymslu í eldhúsi í menningarhúsinu Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn, eftir að skotárás hófst þar fyrr í dag. Þetta er haft eftir Helle Merete Brix, sem er einn skipuleggjenda ráðstefnunnar sem þar fór fram, á vef Berlinske.
Lars Vilks.
Að minnsta kosti þrír eru alvarlega særðir og einn látinn eftir árásina. Árásarmennirnir flúðu á dökkum Volkswagen Polo en hafa nú skipt um bíl. Gríðarlega umsvifamikil leit stendur yfir af þeim. Um er að ræða tvo menn sem voru dökkklæddir og tala góða dönsku.
Brix sagði við sjónvarpsstöðina TV2 að hún hafi falið sig í eldhúsi ráðstefnuhússins ásamt Lars Vilks á meðan að árásin stóð yfir. "Ég var í kæliklefa og hélt í hönd Lars Vilks. Hann var mjög rólegur. Við sögðum hvoru öðru vonda brandara. Lífverðirnir hans unnu mjög gott starf".