Núna í aðdraganda kosninga var sett upp nýtt rafrænt kerfi á Ísland.is, þar sem kjósendur geta mælt með framboðum stjórnmálaflokka, svo þeir fái að bjóða fram til þings í lok september. Í gær voru hnökrar í kerfinu og var það ekki í fyrsta sinn, en ávallt hefur verið leyst úr málum, samkvæmt svörum dómsmálaráðuneytisins til Kjarnans.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata telur vandkvæðin á rafræna kerfinu þó hafa verið svo alvarleg að Alþingi ætti að koma saman sem fyrst og afnema kröfur sem gerðar eru um meðmælendur framboða fyrir komandi kosningar. Þetta viðraði þingmaðurinn á samfélagsmiðlum í gær og segist í samtali við Kjarnann enn vera sömu skoðunar.
Hann nefndi sömuleiðis við blaðamann að hann væri búinn að láta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, vita af málinu.
Það segist Björn Leví hafa gert þar sem þing var formlega rofið í upphafi ágústmánaðar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Ef það ætti að kalla þingið saman að nýju til þess að stroka út kröfur um meðmælendalista þyrfti forsetinn að koma að því ferli.
Stafrænn leiðtogi kallaður til
Þingmaðurinn er ekki eini Píratinn sem hefur lýst yfir óánægju með einhverjar villur í kerfinu. Gísli Ólafsson, frambjóðandi Pírata í Suðvesturkjördæmi, sagði á Facebook í gær að hann og aðrir sem væru að safna undirskriftum fyrir flokkinn væru að lenda í því að undirskriftirnar væru ekki að skila sér eins og búast mætti við, þar sem kerfið væri sífellt að detta niður og bila.
„Við og aðrir stjórnmálaflokkar höfum ítrekað kvartað til þeirra en ekkert gerist og nú þegar aðeins eru rúmar tvær vikur þar til undirskriftir þurfa að vera komnar, þá lítur allt út fyrir að við þurfum að fara gegn COVID ráðleggingum og safna þessu í persónu,“ sagði Gísli í færslu sinni.
Hann benti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Andra Heiðari Kristinssyni, sem er stafrænn leiðtogi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, á villu sem gerði þeim sem viljugir voru til þess að ljá einhverju stjórnmálaafli meðmæli sín rafrænt ókleift að gera það.
Andri Heiðar sagðist í svari til Gísla ætla að skoða málið og sagði svo að brugðist hefði verið við þessari villu í kerfinu, sem hefði stafað af gömlu SSL-skílríki hjá Þjóðskrá sem runnið hefði út.
Kjarninn spurðist fyrir um málið hjá dómsmálaráðuneytinu í gær og fékk þau svör síðdegis að gagnatenging söfnunarkerfis meðmælendalistans við Þjóðskrá hefði rofnað og væri nýkomin aftur á.
Segjast hafa leyst úr öllum vandræðum
„Notendur á þeim tíma hafa að líkindum lent í vandræðum með að skrá sig,“ sagði Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins í svari til Kjarnans. Í kjölfarið spurði blaðamaður hvort þetta væru einu vandkvæðin sem tilkynnt hefði verið um í sambandi við meðmælakerfið. Svo er ekki.
„Frá því kerfið var sett í gang hefur ráðuneytið annað slagið fengið ábendingar um hnökra og hefur ráðuneytið ávallt brugðist strax við því svo úr mætti bæta,“ segir í svari dómsmálaráðuneytisins. Þar segir að einhverjir annmarkar hafi verið tæknilegs eðlis, „en einnig var eitthvað um mistök þeirra sem stofna listana á vefnum.“ Ávallt hefði verið leyst úr málum.
Vert er að taka fram að blaðamaður er búinn að prófa að nota kerfið til þess að veita framboði meðmæli. Það gekk smurt fyrir sig.
„Ráðuneytið hefur frá upphafi verið í þéttum og góðum samskiptum við fulltrúa stjórnmálaflokkanna, kynnt fyrir þeim kerfið og fundað með þeim og tæknifólki til að fara yfir þau vandamál sem upp hafa komið við notkun á kerfinu. Okkar tengiliðir hjá flokkunum hafa unnið þetta verkefni af yfirvegun með ráðuneytinu,“ segir einnig í svari ráðuneytisins.
Hvert einasta framboð þarf 1.890 undirskriftir
Allir flokkar sem ætla að bjóða fram til Alþingis í haust þurfa að safna að minnsta kosti 1.890 undirskriftum frá almenningi, en þeim er gert skylt að skila inn á milli 30 og 40 undirskriftum fyrir hvert þingsæti sem er í boði.
Framboð í Norðvesturkjördæmi þarf því að skila 240 undirskriftum hið minnsta, enda 8 þingmenn í kjördæminu, á meðan framboð í Suðvesturkjördæmi þarf að skila inn 390 gildum undirskriftum frá kjósendum þar sem þingmenn kjördæmisins eru 13 talsins.
Hver og einn einstaklingur getur einungis mælt með einu framboði í sínu kjördæmi. Ellefu flokkar hafa boðað að þeir ætli sér að bjóða fram til Alþingis eftir mánuð og ef það á allt saman að ganga upp þurfa að minnsta kosti 20.790 kjósendur að ljá einhverjum lista sín meðmæli.
Þetta er því nokkur vinna fyrir flokkana í aðdraganda kosninga, eins og Stefán Pálsson sagnfræðingur, sem þekkir vel til í herbúðum Vinstri grænna, nefndi á Twitter á dögunum.
https://t.co/023SdetiDn - Allir flokkar, stórir sem litlir, eyða nú orku í að safna meðmælendum til að geta boðið fram. Þetta er orka sem ætti að fara í að sinna alvöru kosningabaráttu. Hvet öll til að taka 10 sek í að mæla með flokki - hvaða flokki sem er. Það hjálpar öllum.
— Stefán Pálsson (@Stebbip) August 23, 2021
Björn Leví segir við Kjarnann að það sé alltaf mikil vinna fyrir framboðin að safna undirskriftunum í aðdraganda kosninga. Rafræna kerfið hafi alveg hjálpað til og virst vera mjög aðgengilegt, þar til upp hafi komið villur sem geri það að verkum að kerfið sé ekki aðgengilegt.
Hann segist hugsi yfir því að þurfa mögulega að fara að stökkva af stað núna, á mun skemmri tíma en verið hefur, til að safna undirskriftum með gamla laginu. „Þetta er bara stress,“ segir Björn Leví.