Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn síðastliðinn föstudag drög að endurskoðun laga um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þar er lagt til að afmörkuð stærri verkefni, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í lögunum, eigi rétt á 35 prósent endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Þá segir í svarinu að markmiðið sé að Ísland verði samkeppnishæft við nágrannalöndin sem sum hver bjóða upp á hærri endurgreiðslur – 35 prósent að ákveðnum skilyrðum uppfylltum – og séu breytingarnar til þess fallnar að laða að bæði stærri og lengri kvikmynda- og sjónvarpsefni til landsins.
„Við vitum að það er mikill áhugi á þessum áformum okkar um lagabreytingu á endurgreiðslunum og við höfum haft málið í algjörum forgangi enda mikið hagsmunamál,“ segir Lilja í svarinu.
Lágmarks framleiðslukostnaður, verkefni til lengri tíma og fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefninu
Drög að frumvarpinu eru nú í samráðsgátt stjórnvalda en þar er lagt til, eins og áður segir, að verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði og teljast stærri verkefni og til lengri tíma njóti 35 prósent hlutfalls endurgreiðslu af framleiðslukostnaði. Önnur verkefni njóti áfram 25 prósent endurgreiðsluhlutfalls eins og verið hefur.
Til að eiga rétt á 35 prósent endurgreiðslu þurfa öll þrjú skilyrðin að vera uppfyllt.
1. Lágmarks framleiðslukostnaður.
Með frumvarpinu er lagt til að fyrsta viðmiðið verði tengt við skilgreindan framleiðslukostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með því er skilið á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna, samanber áherslur úr stjórnarsáttmála. Lagt er til að viðmiðið sé að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi sé að lágmarki 200 m.kr.
2. Verkefni til lengri tíma á Íslandi.
Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að til að eiga rétt á 35 prósent endurgreiðslu sé gerð krafa um að framleiðsluverkefni sé til lengri tíma hér á landi þar sem tökudagar á Íslandi eru að lágmarki 30. Heimilt er að telja eftirvinnslu verkefnis á Íslandi í þeirri tölu.
3. Fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefni.
Með frumvarpinu er lagt til það þriðja viðmið, til að eiga rétt á 35 prósent endurgreiðslu, að fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu séu að lágmarki 50. Nær það jafnt til innlendra sem erlendra starfsmanna. Er með því greint á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna með hliðsjón af almennum efnahagslegum áhrifa verkefna.
Flýttu vinnunni við frumvarpið
Fram kemur í fréttatilkynningu um málið að starfshópur hafi verið að störfum við endurskoðun laganna, en verkefni hans sé að endurskoða endurgreiðsluhlutfall laganna og skoða útfærslur til hækkunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið sé áfram í vinnslu innan menningar- og viðskiptaráðuneytis í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Upphafleg áform ráðuneytisins gerðu ráð fyrir að frumvarp þessa efnis yrði lagt fram á haustþingi 2022. Ákveðið hefur verið að flýta vinnunni og leggja frumvarpið fram nú á vorþingi, segir í tilkynningunni.