Fjölga ætti háskólanemum í vísinda-, tækni-, verkfræði- og stærðfræðigreinum hér á landi og efla endurmenntun svo að mögulegt sé að mæta aukinni sjálfvirknivæðingu starfa og bæta samkeppnishæfni á vinnumarkaðnum á næstu árum. Þetta skrifar Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Samkvæmt Elísu Örnu eru sterkar vísbendingar um að efnahagsþrengingarnar í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar hafi leitt til varanlegs brottfalls fjölda starfa um allan heim, sökum hraðari sjálfvirknivæðingar. Hún segir störfin sem séu hvað mest berskjölduð fyrir sjálfvirknivæðingu fela í sér mikla endurtekningu á einföldum og fyrirsjáanlegum verkefnum, en meirihluti þeirra sé unninn af ungu fólki og þeim sem hafa litla menntun.
Búist er við því að enn fleiri störf muni verða sjálfvirknivæðingunni að bráð á næstu árum, en Elísa Arna bendir á að tæpur helmingur allra starfa hérlendis geti horfið vegna hennar.
Fjölga STEM-menntuðum
„Á þessum umbrotatímum, í hringiðu fjórðu iðnbyltingarinnar og við lok heimsfaraldurs með tilheyrandi umróti, er nauðsynlegt að marka skýra stefnu í atvinnulífinu og hlúa að samkeppnishæfni vinnumarkaðarins,“ bætir hún við. Þar segir hún að menntakerfið leiki lykilhlutverki í því að koma í veg fyrir töpuð störf með því að undirbúa fólk til að starfa í atvinnugreinum sem eru ekki berskjaldaðar fyrir sjálfvirknivæðingu.
Elísa Arna segir einnig að töluvert misræmi sé á milli menntunar fólks og starfa þeirra hérlendis, í samanburði við önnur Norðurlönd og meðaltalið í Evrópu. Leiða megi líkur að því að þetta ósamræmi skýrist að hluta til vegna þess hversu fáir nemendur eru í vísinda-, tækni-, verkfræði- og stærðfræðigreinum (e. STEM).
Hærra hlutfall STEM-menntaðra hérlendis gæti aukið samkeppnishæfni Íslands og tryggt vinnumarkaðinn fyrir þeim tæknibreytingum sem er fyrirséð að eigi sér stað á næstu árum. Einnig væri hægt að hlúa betur að þeim sem eiga á hættu að missa störf sín með auknum tækifærum til sí- og endurmenntunar, en Elísa Arna segir þá leið hafa verið farna í Danmörku.
Hægt er að lesa grein Elísu Örnu í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.