Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Lilju D. Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, þar sem hún vill að ráðherrann svari því hvaða stjórnmálamenn hafi komið fram sem viðmælendur í þáttum RÚV frá síðustu alþingiskosningum. Inga vill fá að vita um alla slíka sem hafa komið hafa fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum, hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra, í hvaða þáttum þeir hafa verið, hve lengi og hversu oft.
RÚV sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Þótt ráðherra fari með eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu er níu manna stjórn yfir því sem kosin er á aðalfundi eftir tilnefningu Alþingis. Ráðuneyti Lilju, sem fer með fjölmiðlamál í ríkisstjórninni, gerir hins vegar þjónustusamning við RÚV um fjölmiðlun í almannaþágu.
Vinstri græn oftast í þáttum RÚV
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Inga spyr um hvaða stjórnmálamenn hafi komið fram á RÚV. Snemma árs í fyrra lagði hún fram sambærilega fyrirspurn um hverjir hefðu komið þar fram frá árinu 2018.
Í svari ráðherra þá kom fram að alls hefðu 28 prósent allra þingmanna sem verið höfðu viðmælendur í sjónvarps- og útvarpsþáttum RÚV frá árinu 2018 verið frá Vinstri grænum. Það er töluvert hærra hlutfall en fylgi flokksins í alþingiskosningunum 2017, en til samanburðar var hlutdeild Sjálfstæðismanna og Miðflokksmanna í þáttum RÚV töluvert minna en fylgi þeirra í síðustu kosningum.
Samkvæmt svari ráðherra höfðu alþingismenn mætt sem álitsgjafar í sjónvarps- og útvarpsþáttum RÚV alls 1.198 sinnum á umræddu tímabili. Árið 2020 voru þær 402 talsins, árið 2019 voru þær 366 og árið 2018 voru þær 400. Í janúar 2021 voru svo 30 heimsóknir skráðar.
Af öllum flokkum sem áttu fulltrúa á þingi komu þingmenn úr flokki Ingu Sæland sjaldnast fram í þáttum RÚV á þessu tímabili. Þar hafði Inga sjálf komið fram níu sinnum í sjónvarpsþáttum RÚV og átta sinnum í útvarpsþáttum síðan árið 2018. Hinn þáverandi þingmaður flokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, hafði svo aðeins komið fram einu sinni í sjónvarpsþætti og einu sinni í útvarpsþætti á tímabilinu. Samtals voru því heimsóknir þingmanna flokksins 19. Flokkur fólksins fékk 8,8 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og er nú með sex þingmenn.
Í svarinu sem ráðherra veitti í fyrra kom fram að hlutdeild heimsókna á meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefði verið mun minni en fylgi hans í kosningunum 2017, en 18 prósent stjórnmálamanna sem birtust í þáttum RÚV voru frá flokknum, sem fékk 25,2 prósent atkvæða í þeim kosningum. Einnig hallaði þessi samanburður á Miðflokkinn, þar sem þingmenn hans voru á bak við sex prósent heimsókna í sjónvarps- og útvarpsþáttum stöðvarinnar, þrátt fyrir að flokkurinn hefði fengið tæplega ellefu prósent atkvæða árið 2017.