Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra telur það best að fá Ríkisendurskoðun til þess að taka út framkvæmd útboðs á hlut ríkisins í Íslandsbanka og fara yfir það með þinginu með hvaða hætti lög og fyrirmæli voru framkvæmd við útboðið. „Ég tel að miðað við það sem ég veit að það muni bara koma vel út fyrir alla framkvæmdina.“
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata spurði ráðherrann af hverju þingið ætti að leyfa fjármálaráðherra að halda áfram að selja Íslandsbanka eða skipta sér yfir höfuð af ríkissjóði þegar föður Bjarna tókst að kaupa hlut í bankanum ásamt fjölda fólks með vafasama fortíð frá bankahruninu.
Halldóra hóf fyrirspurn sína á því að benda á að nú lægi fyrir listi kaupenda í nýafstöðnu útboði á Íslandsbanka. Reifaði hún atburðarásina og benti á að í útboðinu hefði verið hópi fjárfesta boðið að kaupa eignir ríkisins á afslætti. Þann 10. febrúar hefði ráðherra gefið út greinargerð um fyrirætlanir um sölu bankans þar sem meðal annars voru reifuð markmið, söluaðferð og áætlað söluferli bankans. Þann 18. mars hefði fjármálaráðherra sent Bankasýslunni bréf þar sem hann hefði falið henni að framkvæma útboð á bréfum í Íslandsbanka „að höfðu samráði við ráðherra um tímasetningar, skiptingu áfanga og söluaðferðir“.
Af hverju fá einstaklingar með „vægast sagt vafasama fortíð úr bankahruninu“ að kaupa hlut í bankanum með afslætti?
„Yfirlýst markmið með að veita lokuðum hópi fjárfesta þennan afslátt væri að finna trausta langtímafjárfesta sem framtíðareigendur bankans. Tekin var meðvituð ákvörðun um að veita þennan afslátt og nota lokað útboð til að laða að stofnfjárfesta sem langtímaeigendur bankans.
Ráðherra sem ábyrgðaraðili þessa útboðs hefði auðveldlega getað sett reglur eða ramma um það hvernig fjárfestum skyldi hleypt að en þess í stað var um að ræða nokkurs konar villta vestur þar sem fimm sölufyrirtæki tóku kvöldstund í að hringja í sína uppáhaldsfjárfesta. Niðurstaðan er afar sundurleitur listi fjárfesta þar sem einhverjir tugir einstaklinga eru að fjárfesta fyrir brot úr prósenti,“ sagði Halldóra.
Spurði hún því ráðherrann hvað hefði breyst frá því að ráðherra gaf út yfirlýst markmið um að finna stóra hæfa langtímafjárfesta. „Hvers vegna sjáum við fjárfesta sem eru að kaupa brot úr prósenti í bankanum með afslætti? Og af hverju fá einstaklingar með vægast sagt vafasama fortíð úr bankahruninu að kaupa hlut í bankanum með afslætti?“ spurði hún.
Enginn handvalinn – þetta var opið útboð
Bjarni svaraði og sagðist fyrst vilja ræða það sem Halldóra kallaði afslátt í útboðinu og benda á það að hér fór fram sala á rúmlega 50 milljarða hlut sem jafngildir um 300 viðskiptadögum með hlutabréf í bankanum, fimmföld velta á markaði með hlutabréf í Íslandsbanka frá áramótum.
„Spurningin sem var uppi þennan dag var þessi: Hvert er rétta verðið fyrir sölu í dag á 22,5 prósent hlut? Það er spurningin sem var uppi. Það fékkst svar við henni með ríkri þátttöku markaðsaðila, gríðarlega mikilli eftirspurn í útboðinu og svarið var að þeim markmiðum sem eru skrifuð út í lög og voru uppi hér í þinginu af þingnefndum og voru til grundvallar sem viðmið af minni hálfu gagnvart Bankasýslunni – þessum markmiðum öllum mátti best ná með því að gengið væri 117. Enda sjá það allir í hendi sér að ef við hefðum sett inn í Kauphöllina 50 milljarða hlut þá hefði framboðshliðin auðvitað bara leitt til þess að verð í bankanum hefði hrunið. Þegar við skoðum samanburð við önnur dæmi, við getum notað Arion banka hér innan lands eða önnur erlend dæmi, þá sjáum við að frávikið frá síðasta markaðsgengi var lítið í þessu tilviki. Þetta er aðeins um það sem háttvirtur þingmaður kallar afslátt.
Það var engum sérstaklega hleypt að í þessu ferli heldur var það ljóst frá upphafi að þeir sem teldust hæfir fjárfestar máttu taka þátt. Hvað er hæfur fjárfestir? Það er fjárfestir sem hefur næga reynslu og þekkingu til þess að það megi selja honum án þess að það sé gefin út útboðslýsing. Allir þeir sem gáfu sig fram, lýstu áhuga á því að taka þátt í þessu útboði, sem var opinbert af hálfu Bankasýslunnar, og uppfylltu skilyrði um að vera hæfir sem sagt annars vegar og voru reiðubúnir að greiða verðið sem Bankasýslan á endanum lagði til og ég samþykkti, þeir fengu að taka þátt. Enginn handvalinn. Þetta var opið útboð,“ sagði Bjarni.
Af hverju ætti þingið að leyfa Bjarna að halda áfram að selja bankann?
Halldóra kom aftur í pontu og sagði að afsláttur væri fyrir stóra fjárfesta, til að laða að stórri áhættusamri fjárfestingu, ekki fyrir Lyf og heilsu til að kaupa banka eða föður fjármálaráðherra.
„Í fyrsta útboðinu á bankanum tapaði ríkissjóður 30 milljörðum. Í seinna útboðinu mistókst að finna hæfan framtíðareigenda en það tókst að selja föður fjármálaráðherra hlut í bankanum með afslætti ásamt fjölda manns með mjög vafasama fortíð frá bankahruninu. Að gefinni þessari reynslu, af hverju í ósköpunum ætti þingið að leyfa hæstvirtum ráðherra að halda áfram að selja þennan banka eða skipta sér yfir höfuð af ríkissjóði?“ spurði hún.
Telur að skoðun muni koma vel út
Bjarni svaraði í annað sinn og sagði að stjórnvöld hefðu lagt sig fram um það að tryggja gagnsæi um alla þessa meðferð. „Þess vegna voru þessi samskipti við þingið og þess vegna meðal annars lagði ég mikla áherslu á það, ef lög ekki hindruðu, að birta lista yfir þá sem fengu úthlutun í þessu útboði. Um það giltu almennar reglur.“
Hann vildi vekja athygli á því vegna þess að Halldóra hefði skoðanir á einstökum kaupendum og teldi þá misvel til þess fallna að fara með eignahlut í fjármálafyrirtæki að lög kvæðu á um það að ef einstaklingar eða lögaðilar vilja fara með virkan eignarhlut, eins og það heitir í lögum, yfir 10 prósent þá yeðu þeir að fara í gegnum nálarauga.
„Það gildir ekki fyrir smáa eignarhluti. Þar gilda aðrar reglur. Ég ætla að segja þetta um framhaldið: Vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið þá held ég að það sé langbest – til þess einmitt að tryggja að það sé ekkert í skugganum og það sé vel farið yfir þá framkvæmd sem við höfum hér nú nýgengið í gegnum – að við fáum Ríkisendurskoðun til þess að taka út framkvæmd útboðsins og fara yfir það fyrir þingið með hvaða hætti lög og fyrirmæli voru framkvæmd við þetta útboð. Ég tel að miðað við það sem ég veit að það muni bara koma vel út fyrir alla framkvæmdina.“