Ræða þarf opinskátt um það hvernig Ísland hyggst ná eigin loftslagsmarkmiðum og hvort þær leiðir feli í sér auknar virkjanir eða meiri orkusparnað, segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, í grein sinni í jólablaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Samkvæmt Berglindi hefur umræðan um orkuframleiðslu og náttúruvernd setið föst í djúpum skotgröfum um langt skeið, þar sem andstæðir hópar virkjunarsinna og verndunarsinna hafa skipst á skeytasendingum. Illa hafi tekist að smíða brú á milli þeirra sem telja að verðmætri náttúru hafi verið fórnað í þágu fárra stórfyrirtækja og hinna sem telja að mikil efnahagsleg framfaraskref hafi verið stigin með virkjanaframkvæmdum og orkusölusamningum.
Hún segir þennan málaflokk þó ekki vera svarthvítan, heldur marghliða úrlausnarefni þar sem taka verði ákvarðanir á grunni vandaðra kostnaðar- og ábatagreininga þar sem öll sjónarmið verði tekin með í reikninginn.
Mikilvægt að taka ekki ákvarðanir í flýti
Í grein sinni víkur Berglind að nýlegum vanda við að nýta innlenda orkuþörf, sem hún segir að geti hvatt til ályktana um að drífa þurfi í virkjanaframkvæmdum. Að hennar mati ætti hins vegar ekki að taka ákvarðanir um virkjanir í flýti á grunni þannig stundarvanda.
Hins vegar þyrfti að taka ákvarðanir um það hvort virkja þurfi meira til þess að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Í því tilliti bendir Berglind á að mögulega væri hægt að komast hjá fleiri virkjunum ef víðtæk sátt myndaðist um að efna til markviss orkusparnaðar, en bætir þó við að líklegt sé að virkja þurfi meira ef við ætlum að framleiða eldsneytið sjálf fyrir samgöngur á sjó og í lofti hérlendis.
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
Sömuleiðis segir hún að það sé sjálfsagt að skoða hvort selja ætti umhverfisvæna orku til annarra landa í gegnum sæstreng eða framleitt umhverfisvænt eldsneyti til útflutnings í stórum stíl. Hér bætir hún þó við að mikilvægt sé að hafa í huga að slíkir valkostir séu alls ekki eina leiðin fyrir Íslendinga til að verða öðrum þjóðum að liði í loftslagsbaráttunni.
Sem dæmi um aðrar leiðir nefnir Berglind að Íslendingar geti haft áhrif í gegnum aukna áherslu á nýsköpun, en með því væri hægt að þróa grænar lausnir sem geta nýst öðrum þjóðum. Einnig segir hún Ísland geta orðið til fyrirmyndar í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, þar sem verðmæti eru sköpuð með minni sóun og meiri endurnýtingu.