Í drögum að frumvarpi sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson situr, er lagt til að greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris verði tvöfaldað að lengd, og verði allt að 36 mánuðir í stað þeirra 18 mánaða sem það er í dag.
Í drögunum er einnig lagt til að heimild til að framlengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris verði lengd úr 18 í 24 mánuði. „Þannig er gert ráð fyrir að tímabil endurhæfingarlífeyris verði allt að fimm ár í stað þriggja ára samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er lagt til það skilyrði fyrir framlengingu greiðslna að endurhæfing með aukna atvinnuþátttöku að markmiði sé enn metin raunhæf og því gert ráð fyrir auknum kröfum um framvindu endurhæfingar og áherslu á endurkomu viðkomandi á vinnumarkað.“
Endurhæfingarlífeyrir er ætlaður þeim sem eru óvinnufærir vegna sjúkdóma eða slysa og eru í endurhæfingu til að komast aftur út á vinnumarkað. Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris eru að umsækjandi sé óvinnufær vegna sjúkdóma eða slysa og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Til þess að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.
Kostar ríkissjóð rúmlega tíu milljarða á ári
Endurhæfingarlífeyrir er greiddur af Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt drögunum sem kynnt hafa verið í samráðsgáttinni liggur ekki fyrir mat á fjárhagslegum áhrifum þess að lengja tímabil endurhæfingarlífeyris með þeim hætti sem er lagt til. Ríkissjóður greiddi 8,4 milljarða króna í endurhæfingarlífeyri í fyrra og samkvæmt fjárlögum ársins í ár er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs verði 10,5 milljarðar króna.
Dæmi um einstaklinga sem hafa fullnýtt rétt
Frumvarpinu er ætlað að vera fyrsta skref í átt að nýju greiðslu- og þjónustukerfi vegna starfsgetumissis. Markmiðið er, líkt og áður sagði, að tryggja þeim sem hafa misst starfsgetu endurhæfingarlífeyri til lengri tíma en nú gildir.
Í drögunum segir að dæmi séu um að einstaklingar hafi fullnýtt rétt sinn til greiðslu endurhæfingarlífeyris áður en starfsendurhæfing er talin fullreynd og að það auki líkur á því að einstaklingar verði metnir til örorku þrátt fyrir að enn séu taldar líkur á að ná megi árangri með frekari endurhæfingu.
Þar er einnig fullyrt að heilt yfir hafi dregið úr fjölgun þeirra sem fá samþykktan örorkulífeyri á síðustu árum samhliða því að fjölgað hefur í hópi þeirra sem fá samþykktan endurhæfingarlífeyri. Samanlagður fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þó haldist í hendur við mannfjölda á sama aldri síðustu ár, þannig að um tilfærslu milli hópa er að ræða.
Telja að lengra tímabil auki líkur á endurkomu á vinnumarkað
Í greinargerð sem fylgir með frumvarpsdrögunum kemur fram að þeim fækki eftir árum sem fá örorkulífeyri eftir að töku endurhæfingarlífeyris lýkur og því megi draga þá ályktun að með því að lengja endurhæfingartímabilið aukist líkur á endurkomu á vinnumarkað.
Í töflunni hér að ofan sést að fjöldi þeirra sem fengu endurhæfingarlífeyri greiddan hefur vaxið um rúmlega 24 prósent frá árinu 2014 og til loka árs 2018, eða um 359 manns. Sú breyting hefur orðið á tímabilinu að hlutfall þeirra sem nýta töku lífeyrisins í 18 mánuði hefur farið úr 48 í 40 prósent en hlutfall þeirra sem nýtir alla þá 36 mánuði sem standa til boða hefur á móti hækkað úr fjögur í sjö prósent.
Fjöldi þeirra sem eru á örorku árið 2022 úr hópnum sem hóf að fá greiddan endurhæfingarlífeyri árið 2014 er 61 prósent. Hlutfall þeirra sem hófu töku endurhæfingarlífeyris árið 2018 sem er á örorku í ár er hins vegar mun lægra, eða 43 prósent.