Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra telur rétt að bregðast við skorti á vinnuafli hérlendis með því minnka eða afnema skerðingar í 24 mánuði, eða á meðan skortur á vinnuafli er til staðar.
Þetta var á meðal þess sem kom fram í rúmlega tuttugu mínútna langri ræðu ráðherra á fundi Viðskiptaráðs Íslands og Arion banka í gær, sem helgaður var umræðu um samkeppnishæfni Íslands.
„Ég tel að það eigi að minnka eða jafnvel afnema hreinlega skerðingar og ég veit að þetta er mjög róttækt en við munum bara þurfa á fólki að halda,“ sagði Lilja í ræðu sinni á fundinum og bætti því við að „gallinn við það kerfi sem við erum búin að búa til“ væri að „ef þú vinnur eitthvað, þá ertu strax kominn í einhverjar skerðingar og það er svo letjandi fyrir fólk“.
„Kerfið fer strax að refsa þér – og ég held að á meðan það er skortur á vinnuafli þá eigum við að taka einhver svona róttæk skref,“ sagði Lilja.
Afnám skerðinga var ein af fjórum aðgerðum sem Lilja sagði rétt að ráðast til þess að viðhalda nauðsynlegum vexti vinnuafls hérlendis. Hinar þrjár voru þær að taka ætti stór skref í að auka valfrelsi til atvinnu og afnema aldurstengd starfslok, nýta gervigreind og sjálfvirknivæðingu í auknum mæli og fjölga erlendum sérfræðingum í íslensku atvinnulífi. Varðandi það síðastnefnda sagði Lilja að lykilatriði væri að bæta samkeppnishæfni alþjóðlegra grunnskóla hérlendis.
Fjármálaráðherra tók illa í tímabundið afnám skerðinga í fyrra
Drífa Snædal forseti ASÍ stakk upp á því undir lok janúar í fyrra að árið 2022 yrði gert að skerðingarlausu ári, til þess að fólk sem fengi bætur frá almannatryggingakerfinu hefði tækifæri til að „bæta líf sitt, vinna eftir getu og losna tímabundið úr spennitreyjunni“ þegar verið væri að keyra hagkerfið aftur í gang eftir heimsfaraldurinn.
Flokkur fólksins hefur einnig lagt fram frumvörp á þingi á undanförnum þess efnis að allar skerðingar á öryrkja verði felldar niður tímabundið í tvö ár. Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður flokksins tillögu Drífu til umræðu á Alþingi í febrúar í fyrra og spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í það hvernig honum litist á.
Bjarna leist ekki vel á tillögu Drífu.
„Ef við horfum á hóp þeirra sem sæta skerðingum vegna tekna í almannatryggingakerfinu vill ASÍ leggja upp með þá stefnu að við skilum mestu til þeirra úr þessum hópi sem hafa það best. Með afnámi skerðinga koma flestar krónur til þeirra sem hafa það best af þeim sem yfir höfuð sæta skerðingum, alveg augljóst. Þeir skerðast minnst sem hafa minnst. Þannig virkar kerfið í dag,“ sagði Bjarni, í umræðu um málið.