Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að ef svo fari að hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni verði slegnar út af borðinu vilji hann strax hefja vinnu við að skoða aðra valkosti sem fjallað var um í skýrslu svokallaðrar Rögnunefndar, um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu, frá árinu 2015.
Þetta kemur fram í umfjöllun um stöðu flugmála í ljósi jarðhræringanna á Reykjanesi, sem birtist á vef Túrista í dag.
„Hvassahraun var á sínum tíma talinn álitlegasti kosturinn fyrir nýjan flugvöll og Veðurstofan skilar skýrslu sinni um þann kost í haust. Ég tel rétt að bíða eftir þeim niðurstöðum áður en við gefum út miklar yfirlýsingar. Ef niðurstaðan verður sú að Hvassahraun sé ekki lengur álitlegur kostur þá myndi ég vilja að strax hæfist vinna við að kanna aðra kosti sem nefndir voru í skýrslu Rögnunefndarinnar,“ er haft eftir Einari í umfjöllun miðilsins.
Í skýrslu Rögnunefndarinnar, sem var sameiginlegur stýrihópur Reykjavíkurborgar, ríkisins og Icelandair Group, sagði um Hvassahraun að hraunrennsli væri „ólíklegt næstu aldir“ á fyrirhuguðu flugvallarstæði og að „mjög litlar líkur“ væru á „vandræðum vegna sprunguvirkni næstu aldir“.
Nú virðist allt benda til þess að nýtt gostímabil sé hafið á Reykjanesskaga, sem varað gæti þar til sá sem þetta ritar og allir sem þetta lesa verða komnir undir græna torfu. Það breytir stöðunni, eins og ráðamenn hafa tjáð sig um að undanförnu.
Bessastaðanes, Hólmsheiði og Löngusker
Hinir kostirnir sem fjallað var um í skýrslu Rögnunefndarinnar voru Bessastaðanes, Hólmsheiði og Löngusker, auk þess sem fjallað var útfærslur á flugvellinum í Vatnsmýri í breyttri mynd.
Hvassahraun var að mati stýrihópsins sá flugvallarkostur sem hafði mesta þróunarmöguleika til framtíðar, í samanburði við hina, sem þó voru allir sagðir geta rúmað þá starfsemi sem væri í Vatnsmýri.
Varðandi Hvassahraunið voru þó ýmis atriði sem Rögnunefndi taldi að skoða þyrfti betur, þar á meðal mögulegar mótvægisaðgerðir vegna sjúkraflutninga. Einnig sagði að taka þyrfti með í reikninginn nálægð fyrirhugaðs flugvallar við Keflavíkurflugvöll, með tilliti til loftrýmis, flugferla og reksturs.
Í umfjöllun um Hvassahraunið sagði í skýrslu Rögnunefndarinnar að í skýrslu sem sérfræðingar hefðu verið látnir vinna um náttúruvá á svæðinu hefði komið fram að hraun sem myndu ógna flugvallarstæði í Hvassahraunslandi myndu koma upp í Krýsuvíkurkerfinu.
„Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst. Búast má við að næsta gosskeið á Reykjanesskaga hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni. Mjög litlar líkur eru á að sprungur og misgengi verði til vandræða á flugvallarstæðinu næstu aldir. Miðað við tímabil gosskeiða í þeim er langt í það næsta, jafnvel yfir 300 ár,“ sagði í skýrslu Rögnunefndarinnar, með vísan í skýrslu sérfræðinga.