Vindmyllugarðar uppfylltu alla raforkuþörf Danmerkur í hvassviðri sem gekk yfir landið á fimmtudaginn, og var umframorkan sem vindmyllurnar beisluðu úr vindorkunni seld til Þýskalands, Noregs og Svíþjóðar. Breski fréttamiðillinn The Guardian greinir frá málinu.
Á fimmtudagskvöldið framleiddu vindmyllur Danaveldis rafmagn sem samsvarar 116 prósentum af raforkuþörf landsins. Klukkan 03:00 aðfaranótt föstudagins, þegar eftirspurn eftir rafmagni dettur jefnan niður yfir hánóttina, hækkaði framleiðslugetan upp í 140 prósent umfram eftirspurn.
Um 80 prósent af umframorkunni var skipt bróðurlega á milli Þýskalands og Noregs, sem hafa yfir búnaði að ráða sem getur varðveitt orkuna til notkunar síðar. Svíþjóð tók fimmtungshlutinn sem eftir var.
Engir draumórar að endurnýjanleg orka sjái jörðinni fyrir rafmagni
„Þetta sýnir að hugmyndir um að endurnýjanlegir orkugjafar sjái jörðinni fyrir orku eru engir draumórar,“ hefur The Guardian eftir Oliver Joy talsmanni evrópsku vindorkusamtakanna (The European Wind Energy Association). „Vindorka og aðrir endurnýjanlegir orkugjafar geta verið lausnin við kolefnislosun heimsins, og tryggt orkuöryggi þegar mikið liggur við.“
Upplýsingarnar um áðurnefnda raforkuframleiðslu vindmyllanna voru fyrst birtar á vefsíðu Energinet, sem rekur danska raforkuflutningskerfið, en þar er hægt að sjá hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkukerfinu í rauntíma. Þar má sjá að vindmyllugarðar Danaveldir voru meira að segja ekki á fullum afköstum, sem eru 4,8 gígawött, þegar hvassast var á fimmtudaginn og aðfaranótt föstudagsins.